Gyða Margrét Kristjánsdóttir eða gyda gaf út plötuna Andartak í vor. Hún flaug rækilega undir radarinn og því gaman að skýra frá því, að innihaldið er verðugt eftirtektar. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið, sem er plata vikunnar á Rás 2.
Listamaðurinn gyda kom fyrir augu okkar og eyru í fyrra, er hún tók þátt í Söngvakeppninni með laginu „Brosa“. Ekki var það lag nú merkilegt, fislétt smíð sem maður tók vart eftir en Gyða, þá undir fullu nafni, söng það sem dúett ásamt Þór Geir Guðmundssyni. Ég skrifaði á sínum tíma, „Þórir gerir vel en Gyða hefði mátt vera framfærnari. Virðist með ágæta rödd en hún heldur of mikið aftur af sér.“ Fannar Freyr Magnússson og Guðmundur Þórarinsson sömdu lagið og í kjölfarið fóru Gyða og Fannar að semja saman, sem skilaði sér svo í þessari plötu.
Skönnun
Ég var að skanna íslenskar útgáfur á dögunum og þessi plata vakti forvitni mína. Það var eitthvað þarna, og ég fór óðar í saumana á málinu. Lögin hér eru popp; raf- og r og b skotin og platan rúllar af stað á ansi öflugan hátt. Áferðin er nefnilega móðins, engin hallærisheit í gangi, og það er verið að tengja inn í þetta svala sírenupopp sem GDRN og Bríet eru að ástunda. Töff, hljóðræn innskot, smekkleg notkun á raddleiðréttingum og fínasta forritun í gangi. „Mistök“ er hart og kalt; taktarnir grófir og snarpir og útsetningin í takt við tímann. Áferðin minnir þess vegna á Vök. Hún gyda er þá orðin framfærnari, í þessu lagi tekur hún stjórnina, söngurinn er ástríðufullur og ákveðinn. Textarnir snúast mikið til um ástaruppgjör og meðfylgjandi drama, og að því leytinu til datt mér Auður í hug. Þessi nakta einlægni, allt lagt á borð og undir kraumar sorg, reiði og eftirsjá. Þessi lög ganga vel upp, „Þú“ og „Hald‘henni“ til dæmis. Síðastnefnda lagið er gott dæmi um það sem er vel gert hér. Knýjandi framvinda, feitir taktar og ískaldar melódíur.
Kraftur
Efnilegt er það því, en það er líka vel hægt að setja út á eitt og annað. Þetta er byrjendaverk og ber ýmis merki þess. Textar eru misgóðir, og eiga stundum til að vera full ódýrir. Lögin eru líka misgóð. Platan fer af stað af miklum krafti, fyrstu 3,4 lögin mjög sannfærandi en bensínið fer að skorta undir rest. Viðlagið í „Einmana“ er þreytt og „Næ ekki að anda“ sveiflast of mikið út í klisjukennt, einnota popp. Allt öðruvísi bragur en í upphafi, og mann grunar að lökustu lögunum hafi verið lætt baka til. Lagið „Ljósár“, þar sem nefndur Guðmundur Þórarinsson, Gummi Tóta, kemur við sögu er þá arfaslakt og betra hefði verið að sleppa því. En allt í allt, lofandi frumraun.
Spjall þeirra Arnars Eggerts og Andreu Jónsdóttur um plötu vikunnar í Popplandi má heyra með ví að smella á myndina efst í fréttinni.