Norska ljóðskáldið Eldrid Lunden mun vera eitt virtasta ljóðskáld Noregs. Hún sendi fyrst frá sér ljóðabók árið 1968 og varð með henni ein þeirra skálda sem tókust á við að endurnýja móderníska ljóðlist í Noregi á síðari hluta 20. aldar.
Ljóðabækur Eldrid Lunden eru orðnar fimmtán auk þess sem hún hefur gefið út ritgerðarsöfn. Hún var fyrsti prófessorinn í ritlist við norskan háskóla. Ljóðabók hennar Det er berre eit spörsmål om tid; Kalenderdikt 2014-2018 sem Norðmenn tilnefna til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2019 er afar persónuleg bók sem skiptist í sex hluta. Fyrsti og síðasti hlutinn myndar eins konar ramma eða hring utan persónulegan missi en eiginmaður Lunden, sænski rithöfundurinn, bókmenntafræðingurinn og þýðandinn Reidar Ekner, lést 2014. Þetta eru lágstemmd ljóð en þó ögrandi þar sem persónulegar hugleiðingar um samlífið með eiginmanninum öðlast almenna skírskotun og um tíma manneskjunnar, athafnir og aðgerðir.
Bókin ber undirtitilinn Kalenderdikt sem mun vera sjaldséð en þó þekkt hugtak í norskum bókmenntum, dagbókarljóð, og vísar almennt til afmarkaðs tímabils sem á einkum við upphafskafla bókarinnar og lokakaflann. Ljóð Eldrid Lunden eru skrifuð á hljómfagurri nýnorsku, orðin eru vandlega valin og myndir dregnar skýrum dráttum. Þetta eru sterk ljóð og rík af tilfinningu.