Með tilkomu streymisveitna sækir sagnaþyrst fólk í æ meiri mæli í sjónvarpsefni en síður í bókmenntir. „Þetta gerir það að verkum að fólk les bækur á eirðarlausu flökti eins og vefmiðla, frekar en að njóta setninga,“ segir Einar Már Guðmundsson sem lagði nýlega lokahönd á nýja ljóðabók.
Rithöfundurinn Einar Már Guðmundsson, sem hlaut meðal annars Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsögu sína Englar alheimsins, hefur nýlega sett punkt við síðasta ljóðið í nýrri ljóðabók sem ber heitið Til þeirra sem málið varðar. Bókin er væntanleg á haustdögum en samhliða útgáfunni hér kemur hún út á dönsku, myndskreytt með myndum eftir Tryggva Ólafsson heitinn listmálara. Um er að ræða sjöundu ljóðabók höfundar en sú fyrsta kom út fyrir tæplega fjörtíu árum, árið 1980. Einar var gestur í Tengivagninum þar sem hann ræddi við þau Kristján Guðjónsson og Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur um nostalgíu, eða fortíðarþrá, sem honum er afar hugleikin. Hann las einnig upp nokkur ljóð úr óútkominni ljóðabók sinni.
Bækur eiga meira erindi þar sem þær hafa ekki hlutverk
„Ég lifi svolítið í fortíðinni,“ viðurkennir skáldið hugsi en segir það þó ekki endilega af hinu illa. „Nostalgía er náttúrulega svolítið gildishlaðið orð. Það hefur stundum verið notað í neikvæðri merkingu eins og fólk horfist ekki í augu við nútímann heldur lifi á flótta í draumaheimi,“ segir hann. „Í skáldskap þurfa höfundar þó að einhverju leyti að lifa á öllum tímum. Það er hlutverk okkar að miðla tímunum og þeirra anda.“
Fortíðin er sköpuð, samkvæmt Einari, í vitundinni í núinu. „Þessar gömlu stóru skáldsögur voru að súmmera upp eitthvað sem mannkynið var að ganga í gegnum og hugsa á sínum tíma,“ segir Einar. Skáldsögur geta brugðið upp mynd af horfnum tímum á allt annan hátt en sagnfræðibækur, segir hann og tekur Heimsljós eftir Nóbelsskáldið sem dæmi. „Það er hægt að fá allar upplýsingar um munaðarlaus börn í skýrslum en það er tilfinningin í bókinni sem við sem samfélag þurftum,“ segir hann alvarlegur.
Um hlutverk bókmennta í samfélaginu segir Einar enn fremur: „Bókmenntir eru boðberar mennskunnar. Það er því í raun mótsögn þegar sagt er að bókmenntir hafi minna og minna hlutverk, því um leið og þær gera það hafa þær meira og meira erindi. Ef þetta erindi er ekki í samfélaginu þá þarf samfélagið virkilega á þeim að halda.“
Í ljóðum er hægt að segja það sem hvergi verður sagt
Einar Már var staddur erlendis þegar hann byrjaði fyrst að munda pennann en ímyndunaraflið flutti hann heim til Reykjavíkur. „Þarna leitaði nostalgían á mig. Hugurinn leitaði heim í reykvískt borgarkerfi þar sem ég endurskapaði skóla, rakarastofur, bifvélaverkstæði og leiki í fjörunni. Allt þetta skrifaði ég út í loftið en svo réði ég ekki við það fyrr en fyrsta setningin í Riddurum hringstigans kom allt í einu til mín.
Á meðan ég hleyp niður nýbónaðan stigann með klaufhamarinn hans pabba í hendinni situr Óli á olíutankinum fyrir framan húsið. Áður en ég veit af hef ég lamið Óla með klaufhamrinum í hausinn.
„Þarn fann ég tóninn. Sagan var miklu einfaldari en allt þetta en síðan átti ég auðvitað allt þetta efni svo fór þetta í allar áttir. Síðan hafa mér alltaf fundist svona skrif vera samspil þess sem þú er búinn að hugsa og þess sem þú verður að hugsa,“ segir Einar. „Þetta er dálítið svipað með ljóðið. Ljóðið er ekki tilfinning, ljóðið er ekki viska en það er einhvers staðar þarna á milli. Það er hægt að segja eitthvað í ljóðum sem hvergi verður sagt annars staðar.“
Dýptina býr í bókmenntaarfinum
Í nútíma samfélagi hafa sjónrænir miðlar sífellt meiri vigt. Fólk svalar þörfinni eftir því að heyra sögur með sjónvarpsþáttum og kvikmyndum en jafnvel síður með bókmenntum. Hvaða þýðingu ætli það hafi fyrir hið ritaða orð? „Þetta er auðvitað allt úr sömu sagnahefðinni. Auðvitað má segja að það breyti ekki öllu í hvaða formi miðlunin er, ég treysti mér ekki til að fella þann dóm en...“ byrjar Einar og glottir við tönn. „Í bókmenntunum býr þó ákveðin tjáning sem hefur verið í þjálfun í mörgþúsund ár og þess vegna er dýptina að finna þar. Aðrir miðlar vinna í raun gegn þessari tilfinningu á vissan hátt því fólk hefur meiri tilhneigingu til að lesa ekki bækur til að njóta setninga heldur skannar þær á eirðarlausu flökti eins og vefmiðlana. Ég er ekki að segja að við þurfum að fara aftur, eða predika, en þetta eru ákveðnar aðstæður sem við erum að eiga við.“
Rætt var við Einar Má Guðmundsson um fortíðarþrána í Tengivagninum og höfundurinn valdi lög sem hæfðu umfjöllunarefninu. Viðtalið og tónlistina má hlýða á í spilaranum hér fyrir ofan.