„Algeng form samskynjunar eru fyrrnefnd tilfelli sem tengjast litum, bókstöfum og tölustöfum en einnig þekkjast mörg dæmi um að fólk upplifir tónlist í litum, þannig að heilinn fari að túlka tónrænt áreiti sem sjónrænt,“ segir Nína Richter í pistli um samskynjun, en hún segir frá eigin reynslu auk þess að draga upp mynd af fyrirbærinu í samhengi við listir.


Nína Richter skrifar:

Ég var búin að þekkja kærastann minn í nokkrar vikur þegar ég missti þetta út úr mér í samtali um sameiginlegan kunningja: „Fyndið að bíllinn hans sé í nákvæmlega sama lit og hann sjálfur.“ Kærastinn leit á mig ráðvilltur. Ég horfði á hann til baka vammlaus og stóreyg eins og belja að vori. „Já, ég meina, hann er grænn og bíllinn hans er það líka, í nákvæmlega sama lit.“ Kærastinn hváði. „Er hann grænn?“ „Já, augljóslega,“ svaraði ég. „Jólagrænn.“ Og þar með var friðurinn úti. Í kjölfarið fylgdu yfirheyrslur. Hann eyddi heilu kvöldi í að spyrja mig út í liti og tengingar. „Er ég með lit?“ spurði hann. Ég hló að honum, auðvitað var hann með lit, augljóslega heiðgulur með grænum jöðrum. Það er fallegra en það hljómar.

Réttur litur á réttum stað

Ég er synþeti [e. synesthete] með samskynjun [e. synesthesia], og sé meðal annars fólk í litum. Segja má að samskynjunin mín sé öflugust á því sviði. Þá er ekki þar með sagt að ég sjái fólk sveipað litaðri áru, langt í frá. Það má frekar líkja þessu við að líkt og okkur finnast börn vera saklausar verur, þá finnst mér föstudagar vera grænir. Okkur finnst hringur hafa lögun hrings, en mér finnst ég sjálf vera blá. Það er einhver djúp og sönn sannleikstilfinning gagnvart litnum, og þó að ég sé ekki að tala um nein rofin raunveruleikatengsl þar sem bókstafir skipta litum á pappírnum fyrir framan mig, þá eru þeir í réttum lit ef ég loka augunum og er beðin að sjá fyrir mér bókstafinn. Þannig getur það stuðað mig lítið eitt að sjá hluti flokkaða í vitlausa litahópa í uppsetningu á stundartöflum og öðru því um líku. Það er helst í þannig tilfellum sem ég finn fyrir þessu og ákveð oftast nær að leiða það hjá mér, eins og stafsetningarvillu sem ég sé og veit af og tek meðvitaða ákvörðun um að láta standa. Á sama hátt fæ ég mikla ánægju út úr því þegar litir eru á réttum stað, í réttri röð og í kringum rétta fólkið.

Synþetarnir Aphex Twin og Phil Collins

Á Vísindavefnum er samskynjun skilgreind á þann veg að ef áreiti á eitt skynfæri leiði til skynjunar sem einkennir annað skynfæri sé um samskynjun að ræða. Samtök sálfræðinga í Bandaríkjunum áætla að einn af hverjum tvöþúsund falli undir greiningarviðmið samskynjunar. Samskynjun getur verið af ýmsum toga og verið allt frá því að finnast tölustarfir eiga sinn sérkennislit, yfir í snertitengda samskynjun þar sem sjónrænt áreiti framkallar snertitilfinningu, sem getur háð viðkomandi mikið. Algeng form samskynjunar eru fyrrnefnd tilfelli sem tengjast litum, bókstöfum og tölustöfum en einnig þekkjast mörg dæmi um að fólk upplifir tónlist í litum, þannig að heilinn fari að túlka tónrænt áreiti sem sjónrænt. Fræg dæmi um slíkt er tónlistarfólk á borð við Aphex Twin, Phil Collins og Pharrell Williams, en sá síðastnefndi gaf einmitt út plötu árið 2008 sem ber heitið Seeing Sounds.

Engin hjátrú

Samskynjun er einstaklingsbundin en til að mynda er ekkert líklegra að tveir synþetar upplifi sömu tölustafi í sama lit. Einnig eru dæmi um að í einhverjum tilfellum eldist hún af fólki, en tengingin sé öflugri hjá börnum. Þá er hægt að framkalla samskynjun með ýmsum lyfjum og hafa ofskynjunarlyf gjarnan verið nefnd í því samhengi. Fyrirbærið hefur löngum heillað listamenn og það ætti ekki að koma á óvart að þeir sem upplifa samskynjun leggi fyrir sig listir. Ótal dæmi úr bókmenntasögunni sýna fram á þetta, en þó skal þess getið að sömu dæmi hafa getið af sér og viðhaldið allskonar mistúlkun á fyrirbærinu. Að sama skapi má nefna að samskynjun er ekki hjátrú, og tengist engum trúarkerfum með beinum hætti. Skynhrifin eru ekki kölluð fram viljandi heldur birtast þau af sjálfu sér. Þá má nefna líka að margir synþetar vita ekki af samskynjuninni fyrr en einhver bendir þeim á að svona sjái ekki allir heiminn.

Einstakt snjókorn

Ég ákvað í skyndibrjálæði fyrr í vikunni að tjá mig um fyrirbærið á Twitter, mögulega í einu af mínum alræmdu athyglissýkiköstum. „Sjáið mig, ég er einstakt snjókorn.“ - Eða að minnsta kosti eitt snjókorn af hverjum tvö þúsund. Kom á daginn að fjöldi fólks á forritinu tengdi við þetta, en aðrir stóðu á gati. Auðvitað nörtuðu Twitter úlfarnir í hælana á mér, komnir á bragðið með að spegla spesheit „Íslendinga með tjáningargreddu.“

Samskynjun litar líf mitt nokkuð mikið, ef svo má að orði komast. Ég flokka tónlistina mína á Spotify eftir litaupplifun, þó að tónlistartengd samskynjun sé kannski ekki ríkjandi svið hjá mér. Litatenging við flytjanda tónlistarinnar er mun sterkari og mögulega lekur það eitthvað á milli. Eins hef ég gríðarlega þörf fyrir að klæða mig í ákveðna liti, og læt aldrei sjá mig í öðrum litum sem stuða mig og eru bara alls, alls ekki ég. Ég myndi aldrei klæðast smaragðsgrænu og ég myndi ekki láta ná mér dauðri í skærfjólubláum, þó að mér finnist báðir litir mjög fallegir. Bara ekki nálægt mér, en þessir litir framkalla sterkar neikvæðar tilfinningar hjá mér í ákveðnu samhengi. Ég skreyti heimili mitt sömuleiðis af öfgakenndum metnaði með bláa litnum sem mér finnst einkenna mig, af því að þar sem þann lit er að finna, þar finnst mér ég eiga heima.

Ekki snilligáfa - en hjálpar snillingum

Mér finnst mjög hæpið að afgreiða samskynjun sem einhvers konar snilligáfu, en ég held að ef manneskjan er snillingur til að byrja með geti samskynjun örugglega hjálpað til og aukið á þá snilli. Í mínu tilfelli er birting samskynjunar aðallega sérviskulegt samband við liti og í besta falli tilkomulítið partýtrikk, en þó má beisla hana í hlutum eins og minnistækni. Árið 2004 setti Daniel Tammet Evrópumetið í, tja, hvað eigum við að kalla þetta? Evrópumet í að leggja aukastafina í pi á minnið. Ef þessi grein á sérheiti, sendið mér ábendingu. Daniel Tammet lagði alls 22,514 tölustafi á minnið á aðeins fimm klukkustundum og sagðist einfaldlega hafa séð alla þessa aukastafi sem landslagsmálverk með litum, áferð og stundum jafnvel hljóði.

Ég man tvo aukastafi í tölunni pi, einn og fjóra. Hins vegar get ég alveg sagt ykkur hvernig stjórnendur þáttarins eru á litinn. Eiríkur Guðmundsson er sögukennaraflauelxbuxnagrænn og Anna Gyða er svört. Mér finnst líka allt í lagi að vera bara frekar tilkomulítill synþeti, í tilkomumiklum klúbbi synþeta sem þurfa gjarnan að útskýra að þetta sé ekki bara einn litríkur brandari.

Og Lestin brunar, og Lestin er rauð.

Pistillinn var fluttur í Lestinni á Rás 1 þann 11. apríl 2018.