Doktor í annarsmálsfræðum við Háskóla Íslands segir að ekki sé til nægilega mikið námsefni, og ekki nógu fjölbreytt, í íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur. Mikilvægt sé að vanda til verka og sjá til þess þeir sem stjórni kennslunni hafi nægilega þekkingu á málaflokknum.

Viljum gera betur

Í spurningakönnun, sem yfir 2.200 innflytjendur á Íslandi tóku þátt í, kemur fram að um 60 prósent þeirra eru óánægð með þau íslenskunámskeið sem þeim stendur til boða. Könnunin er liður í rannsóknarverkefninu - Samfélög án aðgreiningar? Aðlögun innflytjenda á Íslandi, sem hleypt var af stokkunum í ársbyrjun 2018. Auk Háskólans á Akureyri tekur Háskóli Íslands þátt í verkefninu auk nokkurra erlendra háskóla. Könnunin náði til innflytjenda á aldrinum 18 til 80 ára. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að taka verði þessa niðurstöðu alvarlega.

„Við viljum gera mun betur hvað þennan málaflokk varðar. Við erum að leggja sérstaka áherslu á fræðslu og menntun innflytjenda á Íslandi í nýrri þingsályktunartillögu um það hvernig eigi að efla íslensku sem opinbert mál. Það er alveg ljóst að þegar við fáum svona niðurstöðu að þá þarf að fara gaumgæfilega yfir það, setja upp aðgerðaáætlun og hvernig við ætlum að bæta þetta,“ segir Lilja Alfreðsdóttir. 

Í þingsályktunartillögunni sem nú er til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis er lögð fram aðgerðaáætlun til ársins 2022 um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi. Þar eru sett fram markmið um íslenskunám fullorðinna innflytjenda. Þar segir:

Settur verði hæfnirammi um íslenskunám innflytjenda og viðeigandi námsleiðir þróaðar með auknu framboði námskeiða og námsefnis á öllum stigum. Samhliða verði útbúið rafrænt matskerfi til að meta hæfni fullorðinna innflytjenda í íslensku. Einnig verði að skoða stöðu þeirra sem ekki eiga kost á að fá námskeið niðurgreidd.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að 120 milljónum króna sé varið til íslenskukennslu fullorðinna innflytjenda á ári og að sú upphæð hafi ekki hækkað í samræmi við fjölgun innflytjenda. Mikilvægt sé að breyting verði á því. Áhersla verði lögð á að tryggja aðgang og gæði námsins.

Væntingar oft óraunhæfar

Guðrún Theódórsdóttir, dósent í annarsmálsfræðum við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, svarar nei og já þegar hún er spurð hvort niðurstaða könnunarinnar komi á óvart. Hún hafi heyrt óánægjuraddir en ekki sé alltaf ljóst að hverju þær beinist. Hún bendir líka á að væntingar nemanda sé oft óraunhæfar.

„Nám í íslensku sem og öðru máli tekur tíma. Eitt til þrjú námskeið segja afskaplega lítið. Fólk lærir kannski undirstöðuatriðin en til þess að læra íslensku almennilega þarf lengra nám og tíma,“ segir Guðrún.

Námsefni af skornum skammti

Íslenskukennsla fyrir fullorðna innflytjendur fer að mestu fram í símenntunarmiðstöðvum víðs vegar um land. Finnst Guðrúnu skipulag þessara mála vera í lagi?

„Samkvæmt þessari rannsókn er þessi málaflokkur ekki í lagi. Það virðist vera lítil samræming á þessu námi og lítið utanumhald. Námsefnið er af skornum skammti. Þeir nefna í skýrslunni að menntun kennara sé ábótavant. Í því sambandi vil ég nefna að það er til nám til þess að kenna íslensku sem annað mál fyrir fullorðna. Það heitir annarsmálsfræði hér við Háskóla Íslands.“

Í umfjöllun Spegilsins um niðurstöður könnunar Háskólans á Akureyri í síðustu viku kom fram að hér skorti nám fyrir þá sem kenna fullorðnum innflytjendum íslensku. Eins og Guðrún bendir á er til meistaranám við Háskóla Íslands í annarsmálsfræðum sem beinist einkum að kennslu fyrir fullorðinna. Einnig er í boði 10 eininga námskeið, Kennsla íslensku sem annars máls. En nær meistaranámið til þeirra sem kenna innflytjendum íslensku úti um allt land?

„Já, tvímælalaust að einhverju leyti. Til þess að læra að kenna íslensku sem annað mál geta menn komið hingað í tveggja ára meistaranám,“ segir Guðrún. En eru þetta líklegir kennarar sem fara að kenna í símenntunarmiðstöðvum? „Það er alveg klárt að símenntunarmiðstöðvar og málaskólar þurfa og verða að gera þær kröfur til kennara að þeir hafi menntun í kennslu íslensku sem annars máls. Og þá eru þeir meistaranámsnemar sem klára námið hjá okkur að fara að kenna þar,“ segir Guðrún.

Guðrún bendir á skort á námsefni og skort á samræmingu.

„Námsefnið er oftast þannig að kennarar eru að búa það til sjálfir vegna þess að það er ekki til nægjanlega mikið og fjölbreytt námsefni og það er auðvitað vandamál. Uppbyggingu námskeiða getur verið ábótavant. Menn eru kannski ekki alveg vissir um hvað þeir ætla að kenna og í hvaða röð og hvernig. Það er galli því þetta þarf að vera skipulag á hlutunum og kannski meiri samræming yfir landið,“ segir Guðrún.

Meira fjármagn frá stjórnvöldum

Guðrún segir að það verði að koma meira fjármagn frá stjórnvöldum. Eins og kom fram hér að framan er Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra áhugasöm um að efla málaflokkinn og það kemur fram í þingsályktunartillögu hennar sem liggur fyrir Alþingi. 120 milljónir fara árlega til kennslu fullorðinna innflytjenda. Guðrún segir mikilvægt að þessum málum verði komið í betra horf.

„Stjórnvöld þurfa að hafa samráð við sérfræðinga á málasviðinu. Á sviði íslensku sem annars máls og annarsmálsfræða. Og það þarf að vera samráð milli sérfræðinganna og símenntunarmiðstöðvanna og stjórnvalda um hvernig þessum málum sé best fyrir komið. En að ausa fjármagni bara í eitthvað, kemur mér ekki á óvart að menn séu óánægðir með það. Ég er óánægð með það. Það þarf að vanda til verka og sjá til þess að það fólk sem stjórnar þessu hafi nægjanlega þekkingu á málinu.“