Hrun hefur orðið í mýflugnastofninum í Mývatnssveit. Sáralítið er þar af flugu miðað við árstíma, bæði af bitmýi og rykmýi. Það getur tekið stofninn tvö til þrjú ár að byggjast upp aftur. Hrun í bitmýsstofni er ekki algengt en hrun í rykmýsstofni er regluleg sveifla sem kemur á hér um bil 7 ára fresti. Það getur tekið stofninn 2-3 ár að jafna sig.
Skortur á blábakteríum í Mývatni, sem er aðalfæða bitmýsins, er líkleg ástæða fyrir hruni þess. Einnig getur óvenjulegt veðurfar í vor hafa haft áhrif. Þeir sem vargurinn bítur gleðjast ef til vill en hrunið hefur keðjuverkandi áhrif á lífríkið í Mývatnssveit. Árni Einarsson forstöðumaður Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn segir bitmýið undirstöðu fyrir lífið í Laxá. Það sé aðalfæða urriðans, húsandarinnar og straumandarinnar. Þetta komi niður á þeim og urriðaveiði minnki sennilega í kjölfarið.
Sveifla sem kemur á 7 ára fresti
Árni segir ekki algengt að hrun verði í bitmýsstofninum, þetta sé sennilega náttúruleg sveifla sem erfitt sé að sjá fyrir og lítið hægt að gera við. Hrunið í rykmýi sé þó árbundin sveifla sem komi á hér um bil sjö ára fresti og sé raunar seinna á ferðinni nú en búist var við. Bandarískir vísindamenn sem hafi unnið að rannsóknum við Mývatn í 10 ár hafi beðið frá síðasta hruni og fylgist nú með öllu ferlinu.
Mýið kemur fyrr upp
Áhrif af hruni mýflugnastofnsins eru margvísleg og til dæmis er líklegt að afar fáir andarungar komist á legg í sumar þar sem mýið er uppistaðan í fæðu þeirra. Þá telur Árni líklegt að þetta hafi áhrif á bleikjustofninn í Mývatni sem hefur vaxið síðustu ár. Mýið hafi alltaf komið upp í júní og ágúst en undanfarin ár hafi það komið upp í maí og júlí sem sé afleiðing hlýnandi veðurfars. Því sé ekki víst að þetta sé dæmigert hrun þar sem miklar breytingar hafi orðið undanfarin ár. Þá sé sumarið aðeins hálfnað og mögulegt að staðan breytist.
Þetta muni þó hafa áhrif á stofnana þar sem þeir þurfa nóg æti fyrir ungviðið, eigi þeir að endurnýja sig. Þegar það bregst fækkar í flestum stofnum, segir Árni. Hann segir að í þeim hrunum sem fylgst hafi verið með hafi mýið alveg horfið og það taki 2 til 3 ár að byggja sig upp aftur.