Á dögunum komu skáldsögurnar Salka Valka og Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness út í nýjum útgáfum. Útgáfurnar eru ætlaðar framhaldsskólanemum, og eru með nútímastafsetningu og orðskýringum. Markmiðið er að gera þessi merku verk aðgengilegri fyrir unga lesendur.

Salka Valka kom fyrst út í tveimur bindum á árunum 1931-1932 og hefur auðvitað verið gefin út margoft síðan, heima og erlendis, sagan af uppvexti og þroska hinnar stoltu Sölku Völku á Óseyri við Axlarfjörð. Og Sjálfstætt fólk, sagan af Bjarti í Sumarhúsum og baráttu hans við allt og alla, er eins og allir vita ein þekktasta skáldsaga Laxness. Hún kom út í tveimur bindum á árunum 1934 og 1935 og hefur verið gefin út margsinnis síðan á ótal tungumálum. 

Stafsetningin truflar

Oddný Sigurrós Jónsdóttir ritstýrir nýju útgáfunum, en orðskýringar unnu Gunnar Skarphéðinsson og Herdís Þ. Sigurðardóttir framhaldsskólakennarar.

Oddný segir að það sé mikilvægt að gera verk Laxness aðgengileg fyrir ungt fólk. „Krakkar í dag eru börn 21. aldarinnar og Halldór Laxness fæddist í byrjun 20. aldar þannig að það fer sífellt meiri tími kennara í að skýra orðin í bókunum hans og sumir nemendur láta stafsetninguna trufla sig, þeir eiga erfitt með að breyta út af hefðbundinni nútímastafsetningu.“

Sjaldgæf og illskiljanleg orð

Sem kunnugt er lagði Halldór Laxness sig mjög fram við að safna orðum og kynna sér talsmáta fólks víðsvegar um landið. Í verkum hans má finna orð sem höfðu jafnvel aldrei birst á prenti, hvað þá í orðabókum. „Krakkar í dag hafa ekki þennan orðaforða,“ segir Oddný, „og það verður að koma til móts við þau af því að við viljum að börn kynnist þessum snillingi, og ryðja burt hindrunum ef við getum.“ 

Óalgeng eða illskiljanleg orð í verkum Halldórs dragi þó alls ekki úr lestrarnautninni. „Hann var náttúrlega mjög mikill orðasafnari, og okkur finnst það náttúrlega mjög skemmtilegt, þótt við skiljum ekki orðin sjálf þá dregur það ekkert úr ánægjunni við að lesa bækurnar.“

Snilldin enn til staðar 

Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem verk Laxness eru gefin út með nútímastafsetningu. Nýlega var fyrsta skáldsaga hans, Barn náttúrunnar, gefin út með þeim hætti í tilefni af hundrað ára afmæli verksins. Gerpla hefur komið út með nútímastafsetningu, Íslandsklukkan sömuleiðis, og til eru eldri skólaútgáfur þar sem þessi leið er farin. Strax á sjöunda áratugnum fóru menn að leita leiða til að matreiða þessi verk og fleiri fyrir unga lesendur.

Oddný er á þeirri skoðun að verk Laxness glati ekki sjarmanum við það að stafsetningunni sé breytt til nútímahorfs. ,,Þetta er allt þarna, snilldin er öll þarna, þó að Halldór Laxness sé þýddur á ótal tungumál fer snilldin ekki úr bókmenntaverkinu, þannig að við verðum að fara sömu leið."

Áframhaldandi útgáfa

Aðspurð hvernig verk Halldórs Laxness leggjast í unga lesendur um þessar mundir segir Oddný að sumir kunni að meta hann, öðrum finnist hann hins vegar mjög erfiður. Hún segir að vonandi verði áframhald á útgáfu í sama anda. „Það eru náttúrlega fleiri skáldsögur eftir Halldór Laxness notaðar í framhaldsskólunum, eins og Atómstöðin, Brekkukotsannáll og fleiri bækur, þetta fer svolítið eftir viðtökum nú, en vonandi verður blómleg útgáfa í þessu fyrir ungdóminn.“ 

Rætt var við Oddnýju Sigurrós Jónsdóttur í Víðsjá.