Svo virðist sem gerðar hafi verið tvær útgáfur af styttunni Leirfinni. Þetta segir myndlistarkonan Ólöf Nordal, sem vinnur að sýningu þar sem Guðmundar- og Geirfinnsmálið kemur við sögu.

Enn er mörgum spurningum ósvarað um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Einn angi þess hefur ratað inn á vinnustofu myndlistarkonunnar Ólafar Nordal, sem undirbýr yfirlitssýningu um feril sinn. Þar rifjar hún meðal annars upp verk sem hún vann fyrir Kristnitökuhátíðina á Alþingi árið 2000.

„Ég fékk strax þá hugmynd að mig langaði að endurgera Leirfinn. Ástæðan var sú að á þessum tíma var eitt af fórnarlömbum Geirfinnsmálsins að reyna að fá endurupptekið sitt mál, og það var mjög lítill áhugi á því hjá Alþingi að hann fengi að taka það upp aftur," segir Ólöf.

Fékk ekki að sjá Leirfinn

Ólöf ákvað að leggja Sævari Ciesielski lið með því að endurgera Leirfinn og setja á staur á Þingvöllum, þar sem þingheimur þyrfti að ganga fram hjá honum og sjá hann. En þegar Ólöf hugðist nálgast styttuna til að gera eftirmynd af henni, kom upp babb í bátinn. Lögreglan neitaði að sýna henni styttuna. Það tók Ólöfu margar vikur að fá aðgang að henni, þrátt fyrir að dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóri hefðu veitt leyfi fyrir því. Það tókst þó að lokum.

„Og ég mæti þarna í fundarherbergi og er látin bíða svolitla stund, og svo kemur hann loksins og birtist með lítinn skókassa undir hendi, og ég hugsa hann er nú eitthvað að rugla. Hann er að stríða mér, hugsaði ég. Og svo setur hann þennan skókassa á borðið og opnar hann, og það var svolítið eins og að opna Pandórubox, það gusu upp einhverjir eitraðir andar, og manni var bara ekki um sel. Og svo tekur hann upp þennan litla Leirfinnshaus," segir Ólöf.

Þekkti ekki hausinn

Ólöf ljósmyndaði hausinn í bak og fyrir og fór heim að vinna myndina. Henni gekk illa að fá hana heim og saman við þær myndir sem hún hafði áður séð af Leirfinni og fór að leita að myndum í ljósmyndasöfnum dagblaðanna. Þá var henni sagt að lögreglan hefði gert myndir af Leirfinni upptækar úr myndasöfnum.

„Þetta var fyrir daga internetsins, núna hefði ég bara gúglað myndina," segir Ólöf og hlær. Hún fann myndina að lokum á filmu hjá Landsbókasafninu.

„Og þá gat ég fundið þá mynd sem ég var að leita að, og þar þekkti ég Leirfinn, og fór heim og mótaði hausinn."

Ólöf endurgerði Leirfinn í blautan leir og setti upp á staur í Hvannagjá á Þingvöllum. Alþingismenn gengu fram hjá hausnum og komust ekki hjá því að sjá hann. Hausinn veðraðist síðan og molnaði niður með tímanum.

Leirfinnarnir voru tveir

„Niðurstaðan af þessari vinnu er sú að það hafi verið gerðir tveir leirhausar," segir Ólöf. „Fyrri, sem þjóðin þekkir, og svo einhver seinni sem er miklu dularfyllra fyrirbæri. Ég hef engar kenningar, þetta er mér algjör hulin ráðgáta, ég skil ekki af hverju það hafi þurft að gera tvo. Nema þá að þessi sem var gerður fyrst hafi verið of líkur ákveðinni persónu, og það hafi þurft að breyta honum."

Þá ertu að tala um Magnús Leópoldsson?

„Já," segir Ólöf.

Hinn upphaflegi Leirfinnur var gerður eftir lýsingu sjónarvotta af manni sem talið er að hafi hringt í Geirfinn Einarsson kvöldið sem hann hvarf. Því hefur verið haldið fram að leirstyttan hafi vísvitandi verið látin líkjast Magnúsi Leópoldssyni.

Enginn af þeim rannsakendum Geirfinnsmálsins sem fréttastofa ræddi við kannast við að tveir Leirfinnar hafi verið gerðir.

Fyrst leir, nú gifs, kannski brons

Fyrsti hausinn sem Ólöf mótaði var úr blautum leir og lak niður á Þingvöllum, en nú hafa flestir sakborningarnir verið sýknaðir, svo nýi hausinn er úr gifsi.

„Og síðan hef ég hugsað að ef það verða einhvern tímann sættir í þessu máli, þá mun ég steypa hann í brons," segir Ólöf Nordal að lokum.