Eins og fréttastofa greindi frá fyrr í dag hefur Veðurstofa Íslands varað við hellaskoðun í Eldvörpum á Reykjanesskaga eftir að gasmælingar sem gerðar voru á svæðinu í gær benda til þess að slíkt sé lífshættulegt. Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni, segir að í mælingum í síðustu viku hafi ekkert bent til slíks.
„Það er sjálfsagt alveg í lagi að ganga þarna um svæðið, þetta er fallegt svæði og gaman að skoða það. En við erum að vara við hellaskoðun á svæðinu. Það safnast gjarnan fyrir lofttegundir inni í svona hellum og þarna er mikill jarðhiti undir. Við mældum í gær hættuleg gildi og í raun súrefnisskort í helli þarna. Svo það er stórhættulegt að fara inn í þennan helli og hvort séu fleiri hellar á svæðinu, það er vel líklegt. Þess vegna mælum við gegn því að fólk stundi hellaskoðun þarna,“ segir Kristín.
Nú hefur verið minni jarðskjálftavirkni þarna í kringum Þorbjörn. Af hverju gerist þetta núna?
„Það er góð spurning. Þetta er bara mjög margslungin vá og það er einhver breytileiki þarna í þessu kerfi. Við erum að vakta þetta miklu betur en við höfum gert áður og í rauninni hafa ekki verið gerðar reglubundnar mælingar þarna á lofttegundum áður. Ég get ekki útilokað það að þetta hafi einhvern tímann gerst áður. En við mældum þetta í gær og ég get staðfest að fyrir viku síðan voru gerðar sambærilegar mælingar á sömu stöðum og þá var ástandið ekki svona. Þannig þetta er einhver breyting sem hefur átt sér stað og við erum því núna að vara við þessari hættu,“ segir Kristín.
Jarðskjálftahrinan á svæðinu er enn yfir meðallagi, en hún var talin stafa af kvikusöfnun sem leiddi til landriss undir Þorbirni við Grindavík. Hvernig er staðan á svæðinu núna?
„Það virðist hafa heldur dregið úr þessari aflögun. Þetta var eitthvað sem fór óvenju skarpt af stað miðað við það sem við höfum séð áður á Íslandi. En það eru enn að mælast aflögunarmerki þannig að við erum enn bara á tánum með þetta svæði,“ segir Kristín.
Þessar nýju gasmælingar, benda þær eitthvað frekar til gosóróa?
„Nei, þær gera það ekki. Við viljum bara fyrst og fremst vara við þessari hættu.“