Bók Sæunnar Kjartansdóttur um móður sína sem ákvað hálfníræð að svelta sig til dauða er þaulhugsað verk að mati bókarýnis Víðsjár, „textinn hvort tveggja djúpur og skemmtilegur aflestrar og vinnan sem lögð hefur verið í ritunina og sköpunina skín í gegn.“


Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:

Ég held það sé ekki ofsögum sagt að Sæunn Kjartansdóttir sé fremsti sálgreinandi þjóðarinnar. Hún hefur starfað sem sálgreinir um árabil og ritað víða og mikið um efnið, þar á meðal bækurnar Hvað gengur fólki til? Leit sálgreiningar að skilningi frá árinu 1999 og Árin sem enginn man. Áhrif frumbernskunnar á börn og fullorðna sem út komið árið 2009. Nýjasta ritverk Sæunnar er þó frábrugðið því sem hún hefur áður sent frá sér. Nefnist það Óstýriláta mamma mín ... og ég, og er þar um að ræða persónulega og að mörgu leyti sársaukafulla sögu. Upphafsstaður frásagnarinnar og aflvaki er jafnframt endastöð móður Sæunnar, Ástu Bjarnadóttur, en fyrir tólf árum, þá hálfníræð, tók hún þá ákvörðun að deyja – og gera það með því að svelta sig í hel. Sem hún og gerir, ferli sem tekur 45 daga. Skiljanlega var þessi ákvörðun og gjörningurinn sjálfur áfall fyrir börn Ástu og aðra sem henni voru nákomnir, og ef móðir Sæunnar hefði ekki kvatt með svona dramatískum hætti, ef það er þá rétta orðið, er til efs að bókin sem hér er til umræðu hefði verið skrifuð. Skrifin eru höfundinum í senn tækifæri til úrvinnslu á erfiðri reynslu og tilraun til að öðlast þekkingu og dýpri skilning á móður sinni og þannig sjálfri sér og sinni fortíð.

Og það verður að segjast eins og er að Ásta er stórmerkilegt viðfangsefni, svo afskaplega áhugaverð er hún og lífshlaupið allt. Sæunn dregur jafnframt fram með miklum ágætum hvernig móðir hennar skar sig alla tíð úr fjöldanum og tekst að fjalla um hvort tveggja, galla hennar og kosti, sem er auðvitað langt frá því að vera sjálfsagt þegar um jafn náin tengsl er að ræða og mæðgnasambandið. Raunar er bersýnilegt að menntun Sæunnar í sálgreiningu og það sem mætti kalla „sálgreinandi hugsun“ liggja bókinni til grundvallar, en til umfjöllunar er tekið eitt það mikilvægasta og flóknasta viðfangsefni sem til er, eða svo segja fræði sálgreiningarinnar, en það er móðirin og samband barnsins við hana.

Þó er mikilvægt að halda til haga, líkt og Sæunn gerir í inngangsorðunum, að hún er ekki að sálgreina móður sína, enda fer slíkt fram undir ákveðnum klínískum aðstæðum og hverfist um samtal sálgreinis og skjólstæðings. Því má bæta við að það sem átt er við með „sálgreinandi hugsun“ er ákveðin skilningur á upplagi og innra lífi manneskjunnar sem tekur með í reikninginn að bókstaflega aldrei er hægt að komast „til botns“ í hugverunni og útskýra með einföldum hætti. Svo ótalmargt mótar persónugerðina sem einstaklingar þurfa ekki sjálfir einu sinni að vera meðvitaðir um, en þar spila bernska og samfélagslegar aðstæður mikilvægt en margflókið hlutverk, margflókið vegna þess að allir upplifa samspil þessara tveggja þátta með sérstökum og einstaklingsbundnum hætti.

Blæbrigðaríkur mannskilningur sálgreiningarinnar er líka til sýnis í þeirri mynd sem Sæunn dregur upp af móður sinni en kjarnast jafnframt í lýsingarorðinu í titlinum, Ásta var „óstýrilát“, hún „neitaði að lúta stjórnandi fyrirmælum og spurði stöðugt ögrandi spurninga“, eins og sagt er um hana á einum stað, og ögrandi spurningunum og uppreisninni gegn regluvirkinu fylgdi óhjákvæmilega ögrandi hegðun. Nýflutt til Reykjavíkur árið 1939, þá sautján ára gömul, uppgötvar Ásta að hún er ólétt, faðirinn er leikfimiskennaraglyðra á Húsavík sem að öðru leyti kemur varla við sögu í bókinni, en á Húsavík höfðu foreldrar Ástu staðið í atvinnurekstri um langt skeið. Á þessum tíma þótti mikil skömm fylgja „lausaleikskrógum“, skömm sem endaði jafnan alfarið í fanginu á konunni, enda þótt hún hafi ekki búið barnið til ein. Eins og átti eftir að sýna sig ítrekað á komandi árum og áratugum þá hristir Ásta af sér eftirköst ákvarðana og atburða sem raskað hefðu lífsáætlunum meiri meðalskussa, og kærir sig að lokum kollótta um þungbúið og dæmandi augnaráð annars fólks. Þegar barnið kemur í heiminn er það sent til Húsavíkur til ömmu og afa og Ásta tekur upp þráðinn í Reykjavíkurtilvist sinni.

Og hvað gerist? Ísland er hernumið og 30.000 breska sjéntilmenn rekur þannig á strendur íslenskra kvenna, Ástu til fölskvalausrar gleði. Hún var með öðrum orðum í „ástandinu“, raunar á bólakafi, en ólíkt flestum konum öðrum skammaðist hún sín aldrei fyrir það. Löngu síðar, í viðtali vegna fyrirhugaðs sjónvarpsþáttar um efnið, lýsir hún þessum árum sem skemmtilegasta skeiði ævi sinnar. Hún heldur við herforingja, er sótt til Reykjavíkur og keyrð til Keflavíkur til að tjútta á laugardagskvöldi og spila svo bridds allan sunnudaginn. Allt er fyrir hana gert og lífið er dásamlegt, hún er auðvitað álitin drusla og föðurlandssvikari af öllum nema hinum konunum í „ástandinu“, en Ásta ber höfuðið hátt og hafnar því alfarið að góðborgararnir hafi umboð til að dæma sig. Herforinginn, Bill, er yfir sig ástfanginn og í stríðslok flytur Ásta til New York, fær sér þar íbúð og vinnu. Eini hængurinn er að Bill er þegar giftur og kaþólskur í þokkabót en sambandið heldur áfram.

Víða styðst Sæunn við bréf sem hafa varðveist og á New York tímabilinu stillir hún meðal annars saman bréfaskriftum Ástu við móður sína heima í Húsavík, sem áhyggjur hefur af dóttur sinni en er annars styðjandi og kærleiksrík, og bréfum Bill frá Þýskalandi, þangað sem hann hefur verið sendur sem aðalsaksóknarinn í málum sem tengjast ákærum fyrir stríðsglæpi í útrýmingarbúðunum í Dachau. Ásta, og við með henni, lesum þannig á víxl bréfin frá Húsavík, plássi langt út úr allri alfaraleið heimssögulegra atburða, og bréfin frá Bill, þar sem dagsverkið var að fá SS menn hengda.

Helförin og Húsavík, þessi árekstur ósamræmanlegra heimsmynda er dæmigerður fyrir lífshlaup Ástu, og það sem kemur á óvart við lesturinn er hversu margt, óvenjumargt, sérstakt og sögulegt gerist í lífi hennar. Það gustar alltaf um hana, jafnvel þegar hún er hvað „normatífust“ og hittir og giftist rólyndum herramanni, föður höfundar, og stofnar til fjölskyldu. En það reynist skammgóður vermir, maðurinn hennar fellur frá langt um aldur fram, og Ásta leitar á náðir Bakkusar. Áfengissýkin sem heltekur hana í kjölfarið er um margt skelfileg en um leið líka söguleg því enn á ný tekst Ástu að yfirtrompa eldra hneyksli með nýjum og enn litríkari skandal og óhæfu, að þessu sinni með þvi að flytja á samyrkjubú í Ísrael, allslaus og án barnanna sinna. Að lokum snýr hún aftur en þá, og án útskýringa, með þeldökkan og myndarlegan Araba upp á arminn, hann Faisal, sem reynist gæðablóð en kannski heldur þjófóttur. Vel er hægt að ímynda sér hvað húsmæðurnar í Laugarnesinu um miðjan sjöunda áratuginn höfðu um það að segja, svona sín á milli, að fjögurra barna móðir á miðjum aldri hafi tekið upp með ungum Araba. En aftur, Ástu stóð á sama.

Lesandi fær á tilfinninguna að áfengissýki Ástu sé fyrst og fremst sjúkdómseinkenni, frekar en sjúkdómur, drykkjan verður enn önnur leið fyrir hana til að gera það sem henni sýnist, storka þeim sem eru í kringum hana, og vera óstýrilát, í þeirri merkingu að láta ekki að stjórn. Ferðaþráin – en Ásta ferðaðist mikið ein – er sömuleiðis birtingarmynd hennar innri persónuleika, hún þolir ekki lognið, viðburðasnauðan hversdaginn, og að fara frá einum stað til annars, eins og Hattífatti, er leið til að bregðast við þessum óróleika, friðþægja um stundarsakir umrót í anda og geði án þess að þurfa að takast á við rót eirðarleysisins. En þannig má segja að Ásta sé líka á valdi hvatanna, hún sækir handan vellíðunarlögmálsins um leið og hún er tortímandi afl, það er til að mynda óstýriláta kynhvötin sem misbýður fólki í „ástandinu“, hún reitir fólk til reiði viljandi og markvisst, og  undir lokin gefur hún sig dauðahvötinni á vald og neitar líkama sínum um næringu.

Þegar ráðist er í endurminningar sem þessar, um jafn nána manneskju og móðir manns er óhjákvæmilega, hættir fólki til að skorta fjarlægð á viðfangsefni sitt; fara út í væmni, vera ásakandi, setja sjálfa sig jafnvel í forgrunn og einblína á tilfinningalegar upplifanir. Þetta á engan veginn við um þessa merkilegu nýju bók Sæunnar; Óstýriláta mamma… og ég er þaulhugsað verk, textinn hvort tveggja djúpur og skemmtilegur aflestrar og vinnan sem lögð hefur verið í ritunina og sköpunina skín í gegn.