Það er kraftaverk að ég hafi lifað þetta af, segir kona sem minnist þess nú að fjörutíu ár eru liðin frá því hún lenti í tveimur flugslysum á Mosfellsheiði sama daginn. Hún segist vera afar þakklát þeim sem komu að björgun hennar.

Tuula Annikki Hyvärinen var tuttugu og fjögurra ára þegar hún réði sig í vinnu á Íslandi í eitt ásamt Maríu vinkonu sinni. Þær ætluðu heim til Finnlands fyrir jólin en viku áður bauðst þeim að fara ústýnisflug í lítilli Cessna-flugvél 18. desember 1979, sem franskur vinur þeirra, Gerard leigði. Félagi hans frá Nýja-Sjálandi kom með. En flugið gekk ekki að óskum.

„Ég man að við flugum inn í ský sem var alveg hvítt. Það var eins og að fljúga í mjólk,“ segir Tuula.

Gerard reyndi að snúa vélinni til baka.

„það sem ég man næst er að við skullum á jörðinni. Ég fann til í mjóbakinu. Flugvélin var á hvolfi og ég hékk í sætisbeltinu. Ég fann að eitthvað hafði brostið í mjóbakinu,“ segir Tuula.

Mjög kalt var í veðri og þegar ljóst varð að ekki var að kvikna í vélinni skreið Tuula, því hún gat ekki gengið, aftur inn í vélina.

„Svo biðum við eftir hjálp sem við vissum ekki hvenær bærist. Þetta var dálítið skelfilegt því við vissum ekki hvort hjálpin myndi yfir höfuð berast. Við vissum ekki hvort við myndum þurfa að bíða alla nóttina, hvort við myndum finnast, hvað myndi gerast og hvort við myndum deyja,“ segir Tuula.

Rúmum klukkutíma síðar lenti þyrla varnarliðsins en áhöfnin vildi ekki hreyfa við þeim þremur sem voru mest slösuð og tók því aðeins Nýsjálendinginn. Hún kom svo til baka með tvo lækna. Þá var Tuula flutt á börum inn í þyrluna.

„Ég lá þarna í þyrlunni og Magnús, annar læknanna, mældi hjá mér blóðþrýstinginn. Svo fann ég að við vorum á leiðinni upp en síðan vorum við á niðurleið aftur. Ég fann aftur skellinn. Þetta var ótrúlegt. Þetta gat ekki verið. Ekki aftur,“ segir Tuula. Hún man að ljósin slokknuðu í þyrlunni, Magnús féll niður og svo varð alger þögn.

Þyrlan brotlenti 800 metrum frá flugvélarbrakinu. Tuulu tókst að losa sig af börunum og þegar hún skreið út sá hún björgunarsveitarmennina.

„Einn þeirra sagði við mig: Við hittumst aftur elskan,“ segir Tuula og bregður þarna fyrir sig íslensku, svo sterk er minningin. 

Mikill ótti var við það að eldur myndi kvikna og þyrla springa á meðan á björgunaraðgerðum stóð. Ungur maður, Skúli Karlsson, sýndi snarræði þegar hann drap á hreyflinum og kom í veg fyrir sprengingu í þyrlunni. 

„Ég er virkilega þakklát fyrir þessa björgunarsveitarmenn sem komu á staðinn og björguðu lífi mínu,“ segir Tuula.

Tuula man næst eftir sér í sjúkrabíl á leiðinni á Borgarspítalann. Eftir tæplega þriggja mánaða sjúkrahúsvist og endurhæfingu komst hún aftur til Finnlands.

Óttar Sveinsson hefur skráð frásögnina og af því tilefni ákvað Tuula að sækja Ísland heim á ný. 

„Núna átta ég mig á því að það er kraftaverk að ég er á lífi,“ segir Tuula og hún notar íslenska orðið „kraftaverk“.

Hún og María héldu vinskapnum en María lést fyrir fimm árum. Tuula segir að aðgerðin sem var gerð á baki hennar hér á landi hafi heppnast vel. Engu að síður hafi meiðslin verið það mikil að hún glími enn við bakverki.