Leit að manni sem fór í Ölfusá í nótt hefur verið frestað. Að sögn lögreglunnar á Suðurlandi lauk leitinni um kvöldmatarleytið. Hún hefst að nýju upp úr klukkan átta í fyrramálið. Á annað hundruð manns leituðu í og við Ölfusá í nótt og í dag. Þá var lögregla, björgunarsveitir og fleiri viðbragðsaðilar kallaðir að Þingvallavatni í hádeginu í dag eftir að maður og kona fóru í vatnið.
Fólkið, sem er erlendir ferðamenn, var að veiða í vatninu í vöðlum. Konan fikraði sig langt frá vatnsbakkanum, skrikaði fótur og féll ofan í vatnið. Maður reyndi að koma henni til bjargar en örmagnaðist á sundi. Sumarbústaðaeigandi fór á bát út á vatnið ásamt öðrum manni og tókst þeim að koma fólkinu í land. Það var flutt með sjúkrabíl á Landspítalann og eru þau enn í lífshættu.
Átta eða níu manns sem voru á ferðalagi með fólkinu stóð á vatnsbakkanum og sá það sem fram fór. Hópurinn fékk áfallahjálp hjá Rauða krossinum á Selfossi.