Á Safnasafninu á Svalbarðseyri, við austanverðan Eyjafjörð fléttast alþýðulist, nútímalist og handverk saman á einstakan hátt. Sumarsýningar safnsins voru opnaðar á dögunum með verkum eftir fjölmarga listamenn, jafnt leikna sem lærða. 

„Við leggjum mikla áherslu á að sýna á hverju einasta ári eitthvað úr safneigninni, að minnsta kosti þrjár fjórar sýningar, og svo að fá eitthvert ungt fólk sem við teljum að sé spennandi og eigi mikla möguleika framundan og svo einhverja reynslubolta,“ segir Níels Hafstein, safnstjóri Safnasafnsins. 

Meðal sýninga sem hægt er að skoða á Safnasafninu í sumar er sýning á verkum listamannsins Þórðar Guðmundar Valdimarssonar sem kallaði sig Kiko Korriró. Árið 2015 eignaðist Safnasafnið meginhluta ævistarfs hans, um 120.000 verk og væntanleg er bók um verk hans og feril. Ýmsir nútímalistamenn sýna einnig verk sín á Safnasafninu í sumar. Til dæmis Steingrímur Eyfjörð, Eygló Harðardóttir og Auður Lóa Guðnadóttir. 

„Við viljum ekki vera að flokka niður í alþýðulist, nútímalist, föndur og svo framvegis eins og er gert í þjóðfélaginu. Við viljum frekar að þetta komi allt  saman,“ segir Níels.