Af hverju vill enginn leika við AfD?

Til að skilja hversu þýðingamikill atburður rétt tæplega sólarhringsseta Thomasar Kemmerich á forsætisráðherrastóli í Thuringen hefur haft á þýsk stjórnmál, sem og þýskt samfélag, þarf að skilja úr hvaða farvegi AfD- flokkurinn sem hefur nú hleypt öllu í bál og brand, kemur. Flokkurinn er ekki gamall, hann var stofnaður árið 2013 sem viðbrögð við efnahagsvanda evrusvæðisins í kjölfar efnahagshrunsins. Fljótlega fóru forvígismenn flokksins að horfa í aðra átt - mögulega í leit að atkvæðum - og þegar Angela Merkel kanslari bauð um eina milljón sýrlenskra flóttamanna velkomna til Þýskralands árið 2015, stökk AfD á annan vagn og varð róttækari í andstöðu sinni við innflytjendur, þá sér í lagi múslima.

Hægt er að flokka flokksmenn sem hægri-popúlíska efsasemdamenn um Evrópusambandið, og síðast en ekki síst þjóðernissinnaða mjög. Það má þó ekki ganga svo langt að kalla þá nýnasista, eins og gjarnarn er gert. Vissulega, eins og áður er hefur verið fjallað um í Heimskviðum, sækir flokkurinn fylgi sitt meðal annars til þeirra sem aðhyllast hugmyndafræði þriðja ríkisins, en ekki einvörðungu.

En sökum andstöðu sinnar gagnvart útlendingum og samvinnu flokksins með öfgahópum á borð við Pegida-samtökin, er flokkurinn vægast sagt umdeildur í Þýskalandi. Hann þykir með öðrum orðum boða stefnu ekki ólíka þeirri sem varð valdur einhverju mesta hörmungartímabili mannkynssögunar, þegar nasistar réðu ríkjum í Þýskalandi.

„Við ættum að vita betur“

En hvers vegna er Þjóðverjum jafn brugðið og raun ber vitni? Það er ekki eins og þingmaður AfD hafi sjálfur tekið við stjórnartaumunum í Thuringen. AfD spilaði vissulega hlutverk, en fyrr má nú vera. Eða hvað?

„Stærsta vandamálið er sagan okkar í Þýskalandi,“ segir Vanessa. „Þetta er í fyrsta skipti sem AfD, en flokkur eins og AfD, styður forsætisráðherra með þessum hætti - nú í Thuringen. Þetta er ansi stórt mál í Þýskalandi, því þetta þýðir AfD gæti kannski stjórnað í Thuringen.“

Það er einmitt þetta með söguna, sem Vanessa nefnir, sem kemur illa við Þjóðverja. Stutt er síðan Þýskaland var undirlagt af minningarathöfnum vegna þess að 75 ár eru frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Vanessa segir að þrátt fyrir að Þjóðverjar séu meðvitaðir um illskuverk þriðja ríkisins, séu þeir fljótir að gleyma. Hennar kynslóð og foreldra hennar var ekki uppi á stríðsárunum og með tímanum sé hætta á því að fólk einfaldlega gleymi því, hvernig nasistar komust til valda á sínum tíma. Uppgangur AfD í Þýskalandi, og það fordæmi sem þingmennirnir í Thuringen gáfu í síðustu viku, hringir því óneitanlega viðvörunarbjöllum. Það að þjóðernishreyfingar sem séu andsnúnar útlendingum og fjölmenningu séu að njóta vaxandi fylgis í landi, er uggvænlegt, að mati Vanessu. „Mér finnst það alveg skelfilegt, alveg skelfileg þróun í Þýskalandi. Sérstaklega með tilliti til sögu okkar. Við ættum að vita betur.“

Og AfD er síður en svo að draga saman seglin. Allt bendir til þess að flokkurinn haldi áfram að bæta við sig fylgi, á meðan ríkisstjórnarflokkarnir, þá sér í lagi þeir sem eru rétt við miðjuásinn, missa fylgi. 

Umbrotatímar framundan í Þýskalandi

Það er erfitt að segja til um hvað gerist næst. Þrátt fyrir að Kemmerich hafi ákveðið að taka ekki við forsætisráðherraembættinu að endingu, er engu að síður ljóst að niðurstöður kosninganna voru lýðræðislegar. Kramp-Karrenbauer og Angela Merkel hafa óskað eftir því að kosið verði aftur, en erfitt er að spá í spilin um hvað gerist.

„.Það er óljóst í augnablikinu,“ segir Jóhanna Vigdís. „Það er annað sem veldur þessari stjórnarkreppu í Þýskalandi, það er nefnilega óljóst hvaða áhrif þetta mun hafa á samstarf sósíaldemókrata og CDU í ríkisstjórn. Það samstarf gengur ekki nægilega vel. Flokkur Merkel hefur jafnt og þétt verið að tapa fylgi, og það hefur gerst í þó nokkrum samsbandsríkju. Á sama tíma er AfD að ganga betur og bæta við sig fylgi.“

„Þegar inn kemur hægri öfgaflokkur, sem býður að mörgu leiti upp á skyndilausnir, þá hoppa margir á vagninn. Þrátt fyrir það að allir aðrir flokkar hafi lýst því yfir að samstarf við þennan flokk komi ekki til greina. Þess vegna er áfallið svo gríðarlega stórt þegar Kemmerich er kosinn í síðustu viku. Þú þarft ekki annað en að skoða hljóðlausa mynd af Angelu Merkel þegar hún fær þessi tíðindi. Þú lest þetta áfall úr augum hennar,“ segir Jóhanna, og bætir því við að það ætti ekki að koma neinum á óvart að það væru miklir umbrotatímar framundan í þýskum stjórnmálum. Undir það tekur Vanessa, sem hefur miklar áhyggjur af þróun stjórnmála í heimalandi sínu, Þýskalandi.

„Ég held að við vitum bara ekki hvað gerist næst í Þýskalandi.“