Finna þarf lausn í kjaradeilu heilbrigðisstarfsfólks í dag eða á morgun, að mati heilbrigðisráðherra. Gangi það ekki þurfi að leita annarra leiða.
Minnisblað landlæknis var kynnt í ríkisstjórn í morgun. Þar segir hann að ljúka þurfi verkfalli tafarlaust. Ástand heilbrigðisþjónustunnar sé með þeim hætti að mikil óvissa, óöryggi og ótti ríki, bæði hjá sjúklingum og starfsfólki. Ástandið geti valdið ómældum og óbætanlegum skaða.
Rætt var við Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Þar sagði hann ríkisstjórnina deila þeirri skoðun að þetta sé orðið fullgott hversu látið sé reyna á þanþol í heilbrigðiskerfinu. „Þetta er ekki neinum boðlegt, hvorki stjórnvöldum né heilbrigðisstarfsfólki, að við skulum umgangast heilbrigðisþjónustuna með þessum hætti og við verðum að finna lausn á þessu í dag eða á morgun, að mínu mati, og ef það ekki gengur, þá verðum við að leita annarra leiða. Þetta er bara mín afstaða," segir Kristján Þór. Náist ekki samningar má því gera ráð fyrir að bundinn verði endir á verkfallið með lagasetningu.
63 dagar eru síðan fyrstu verkföll hófust hjá heilbrigðisstéttum og fleiri háskólamönnum og 13 dagar síðan hjúkrunarfræðingar fóru í verkfall. Tillaga ríkisstjórnarinnar fyrir helgi, um að skipa sérstaka sáttanefnd, var slegin af í gær.