Launatengd gjöld, gjöld sem atvinnurekandi þarf að greiða af launum, hafa hækkað úr tæplega 13,5 prósentum árið 2000 í tæplega 22 prósent nú, eða um rúmlega sextíu prósent. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um þróun launatengdra gjalda sem kom út í dag.
„Ég get ekki sagt að hún komi að öllu leyti á óvart vegna þess að hækkandi launatengdur kostnaður hefur verið eitt helsta umkvörtunarefni okkar félagsmanna undanfarin misseri en hún er vissulega sláandi. Sextíu prósenta hækkun á launatengdum gjöldum frá aldamótum er ívið meira en ég hélt ef ég á að segja eins og er,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Nánast allir liðir launatengdra gjalda hafa vaxið umtalsvert frá aldamótum. Mest munar um hækkun mótframlags launagreiðenda vegna lögbundins lífeyrissparnaðar úr sex í ellefu komma fimm prósent. Þá er almennt tryggingagjald nú 5,15 prósent en var 3,99 prósent um aldamótin, svo dæmi séu tekin.
„Við teljum að það sé sameiginlegt hagsmunamál atvinnurekenda og launþega að standa gegn því að þessi kostnaður hækki enn frekar, frekar að reyna að lækka hann vegna þess að hann þýðir í fyrsta lagi að fyrirtæki hika við að bæta við sig fólki. Í öðru lagi verður til aukinn hvati til gerviverktöku. Í þriðja lagi neyðast fyrirtæki frekar til að útvista verkefnum til verktaka jafnvel í öðrum ríkjum,“ segir Ólafur.