Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda, segir að ekki komi til greina að draga ákvörðun um tæplega þriggja milljarða aðgreiðslu og þriðjungshækkun á þóknun stjórnarmanna til baka.
Á aðalfundi HB Granda nýverið var samþykkt að greiða hluthöfum ríflega 2,7 milljarða króna í arð og að hækka þóknun stjórnarmanna um þriðjung.
Starfsmenn HB Granda eru hissa á þessu, á sama tíma og þeim er boðin kjarasamningur sem hljóðar upp á 3,3 prósenta hækkun.
„Fólk er til í að leggja á sig mun meira“
„Það sem ég hef heyrt, það sem ég heft heyrt frá fólki í Eflingu í dag, og bara starfsfólki hérna, þá finnst fólki þetta vera voða mikið bara blautt handklæði í andlitið,“ segir Gissur Breiðdal Smárason, trúnaðarmaður Eflingar hjá HB Granda. „Fólk er til í að leggja á sig mun meira. Fólk sem var ekkert visst um verkfall er allt í einu farið að tala mjög hart um verkfall. Þannig að já, ég held að þetta færi hörku í leikinn.“
Gissur segir starfsmenn til í viðlíka launahækkun. Þarna hafi stjórnendur sett þeim fordæmi. „Já, mjög gott fordæmi, ég er alveg til í að sjá þetta.“
Hann á þó ekki von á að sama gildi fyrir starfsmenn og stjórnendur. „Það sem við virðumst mæta er: Þú færð eins mikla yfirvinnu og þú vilt, hvað ertu að kvarta? Það er ekkert óalgengt eins og hérna að það séu unnir 10 til 12 tímar á dag, það er bara normið. Svo er skilað methagnaði og við fáum ekki neitt, þú veist köku, fría máltíð, íspinna, eins og á Akranesi. Það virðist vera það sem að við fáum.“
Arðgreiðslur samkvæmt sömu stefnu í áratug
Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda, segir arðgreiðsluna í samræmi við stefnu HB Granda í áratug. „Hvað varðar stjórnarlaunin þá voru þetta 150.000 í fyrra, þetta hefur verið tiltölulega lágt hjá HB Granda, og hækkuðu þarna upp í 200.000. Það var gerð tillaga sem allir samþykktu á aðalfundinum. Ég held að það sé ekkert óhóf í þessu að mínu mati, og ef þú færir yfir listann í þessu í Kauphöllinni þá held ég að Grandi sé í einu af neðstu sætunum.“
Kristján svarar því neitandi þegar hann er spurður hvort það sé útilokað að fyrirtækið breyti stefnu sinni, til dæmis með arðgreiðslurnar, í ljósi samfélagsaðstæðna núna. „Nei, ég ég held að hluthafarnir myndu flýja margir hverjir. Ég hugsa að lífeyrissjóðirnir séu ekkert óánægðir með þessa arðgreiðslu, ég er sannfærður um það.“
Ætla ekki að breyta þessu
Kemur til greina að draga þessar ákvarðanir til baka? „Nei, við munum ekki breyta þessu, það er búið að samþykkja þetta á aðalfundi og það er búið og gert,“ svarar Kristján.
Boðar það ekki gott fyrir starfsfólkið ykkar og kjaraviðræðurnar? „Það veit maður aldrei, ég lofa engu um það. Þetta er ekkert búið fyrr en endapunkturinn var kominn,“ segir hann.
„Það var einn sem var mikill forkólfur fyrir sjómenn hér í gamla daga, hann var spurður að því hvort hann væri ekki ánægður með þessa samninga: „Ég er aldrei ánægður með það sem ég fæ“,“ hafi verið svarið að sögn Kristjáns.