Aðgengi að Hafrahvammagljúfrum hefur verið bætt í sumar og einnig að heitum fossi í Laugavalladal þar skammt frá. Landeigandi segir að viðkvæmt svæðið beri ekki mikinn fjölda ferðamanna og aðgerðirnar eigi meðal annars að draga úr hættu á skemmdum.
Í um 115 kílómetra fjarlægð frá Egilsstöðum, uppi á Brúaröræfum, er hægt að beygja niður að Jökulsá á Dal þar sem hún kemur undan Kárahnjúkavirkjun. Stíflan hvílir í syðri enda gljúfranna en neðar er virkjunin í hvarfi og þangað fara margir að skoða Hafrahvamma- og Dimmugljúfur.
Slóðinn að gljúfrunum var orðinn ófær
Undanfarin ár hefur verið illfært eftir slóðanum fyrir stórgrýti en eftir úrbætur í sumar er orðið jepplingafært að þessum náttúruperlum. Þá hafa verið settar upp keðjur til að varna því að fólk fari sér að voða á gljúfurbrúninni og borið í moldarstíga niður að gljúfrunum en þar er hægt að skoða Magnahelli og Dómhelli.
Það eru landeigendur, ásamt Fljótsdalshéraði og Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs sem hafa bætt aðgengið með styrk frá framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Vegabæturnar munu opna staðinn fyrir fleirum. „Áður var þetta fullt af stórgrýti og varasamt og menn löbbuðu alla leið þó það væru bílastæði á báðum endum. Svo höfum við verið að laga niðurgönguna hérna, setja í hana keðju og festa þannig að menn fari sér ekki að voða,“ segir Þorvaldur P. Hjarðar einn landeigenda að Laugavöllum.
Ferðamenn búnir að uppgötva heita fossinn
Vestan við gljúfrin er vin í auðninni. Þetta er Laugavalladalur og eftir lagfæringar á veginum í sumar er líka orðið fært þangað fyrir jepplinga. Þar sprettur heitt vatn upp úr jörðinni og blandast við læk sem myndar heitan foss. Ferðamenn eru búnir að finna þessa perlu sem sumir heimamenn hefðu helst viljað eiga fyrir sig. Þar hittu við á Birgit og Richard Kreindl frá Austurríki að baða sig. „Þetta er besti staður sem ég hef séð hingað til á Íslandi. Hér er heitur foss en við höfum ekki séð slíkt áður,“ segir Richard. Birgit var mjög hrifin af kindum sem fylgdist með þeim baða sig. „Það er kalt og það vindar en hér er hlýtt,“ segir hún.
Fá ekki lengur að aka yfir á til að komast síðasta spölinn
Þarna er verið að laga gamlan gangnamannakofa og þar verður afdrep. Áður óku ferðamenn yfir ána til að komast síðustu metrana í heita fossinn en nú hefur vaðinu verið lokað enda höfðu ferðamenn skemmt bíla sína þegar þeir óku of hratt yfir vaðið og skullu á grjót á hinum bakkanum. Nú á að leggja við ána og ganga yfir um nýja göngubrú. „Það er nú allt í lagi að labba eins og hundrað metra að náttúruperlum. Ég held að það sé ekki víða sem heitt vatn rennur bara í læk og svo geta menn staðið upp í fossinum og þvegið sér á eftir. Þetta er mjög sérstakt. Þetta ræður ekki við mikið og það er það sem endar með ef menn ganga ekki vel um og keyra og aka utan merktra slóða þá endar það með takmörkunum og skömmtunum inn á svæðið. Það er komið í umræðuna því að þetta er mjög viðkvæmt hér. Þessar lagfæringar hér eru nú eiginlega til þess að vera aðeins á undan og vera ekki alveg teknir í bólinu þegar ferðamennskan kemur yfir,“ segir Þorvaldur P. Hjarðar.