Samfélag LARP-ara eða kvikspunaleikara á Íslandi hefur stækkað töluvert á síðustu árum. LARP er skammstöfun og stendur fyrir Live Action Role Playing, eða rauntímaspunaspil eins og það er kallað á íslensku. Félagið var stofnað árið 2013 af 6 íslenskum áhugamönnum en þeim hefur sannarlega vaxið fiskur um hrygg. Í dag eru virkir félagar orðnir um 50 talsins.
Hittast búningaklædd í Öskjuhlíð
Rauntímaspunaspil er nátengt spunaleikhúsi en teygir sig einnig inn í samfélög áhugafólks um sögulegar sviðsetningar (e. Creative Anachronism). Það er þó nokkuð víðara hugtak, er yfirleitt stundað utandyra og þátttakendur eru ekki endilega fagleikarar heldur getur hver sem er verið með í leiknum. Stundum er fyrirbærið kallað kvikspuni á íslensku. Kvikspuni er stundaður um heim allan en þó hafa myndast sérstaklega öflug samfélög í Bandaríkjunum og Þýskalandi. Kvikspunaleikarar í Reykjavík hittast á laugardögum í Öskjuhlíð í Reykjavík, í ævintýralegum búningum sem þau hafa ýmist keypt eða útbúið sjálf. Þar hafa þau búið sér til ákveðið sögusvið sem þau vinna leikinn út frá. Þáttakendur eru á aldrinum 16-30 ára en þau segja að rauntímaspunaspil sé fyrir alla, óháð aldri.
Anna Gyða Sigurgísladóttir dagskrárgerðarmaður tók hópinn tali.
Að byggja karakter á sjálfum sér
Oddur hefur stundað rauntímaspunaspil í nokkur ár. „Ég hef spilað nokkra karaktera. Stundum gerir maður karaktera sem eru mjög byggðir á manni sjálfum en stundum er líka mjög gaman að búa til karaktera sem eru algjör andstæða við mann sjálfan. Góðhjartaðar manneskjur geta komið inn sem illmenni. Maður getur gert hvað sem er og fólk gerir hvað sem er.“ Hann segir að kvikspuninn felist í hlutverkaleik þar sem heimurinn sé fyrirfram skrifaður og þátttakendur leiki síðan persónur úr þessum heimi. Byggist síðan leikurinn á samskiptum leikmanna og umgengni hvert við annað.
Svæðið sem hópurinn notar nær yfir um þriðjung af Öskjuhlíðinni og er leikvöllurinn í einskonar gagnvirku sambandi við þátttakendur og óvæntar uppákomur og hlutir, sem finnast á svæðinu, verða sjálfkrafa hluti af leiknum.
Karakterinn hjálpar við feimnina
Sóley er 22 ára og karakterinn, sem hún leikur, heitir Hototo. „Karakterinn er mjög reið, tilfinningarík og hávær. Hún er aðeins ýktari útgáfa af mér sjálfri. Ég er mjög feimin, þori ekki að tala við fólk en með því að leika þennan karakter næ ég aðeins betur að tala við fólk sem ég myndi annars aldrei þora að tala við.“ Hópurinn segist ekki hafa upplifað mikið af fordómum en þau viti að þeir séu til staðar. „Fólk segir að þetta sé kjánalegt eða barnalegt, óþroskað og nördalegt. Ég hef fengið spurningar um þetta, hef verið spurður hvort að þetta sé bara eitthvað bilað lið hérna, hvort að þetta séu einhverjir nördar. Já við erum nördar og stolt af því,“ segir Oddur. Hópurinn tekur undir þetta, og þau bæta jafnframt við að allir séu velkomnir. „Margt fólk hefur áhuga á því að koma en þorir því ekki, en maður þarf ekki að mæta með neitt nema sjálfan sig og góða skapið. Við í hópnum erum alltaf til í að lána út aukabúninga sem við eigum til, bara til þess að koma fólki inn í þetta.“
Lestin kom við Í Öskjuhlíðinni á laugardaginn var og heyrði hljóðið í nokkrum leikmönnum.