Landsvirkjun hagnast mikið á bráðnun jökla og raforkuframleiðsla fyrirtækisins hefur aukist um átta prósent. Fyrirtækið spáir því að jöklar verði horfnir eftir 200 ár en að aukin rigning og vindorka komi í staðinn, að minnsta kosti að hluta.
Jöklar á Íslandi hafa minnkað um sem nemur flatarmáli átta Þingvallavatna á átján árum. Þetta er mesta einstaka breyting sem hefur orðið á íslensku landslagi á tímabilinu. Eitt þeirra fyrirtækja sem á mikið undir jöklum er Landsvirkjun. Margar stærstu virkjanir fyrirtækisins eru knúnar með vatni sem kemur að mestu undan jöklum. Landsvirkjun hefur fylgst náið með jöklum allt frá árinu 1990, og stundað eigin rannsóknir frá 2003.
„Rúmmál jökla hefur þegar minnkað töluvert mikið. Og það mun halda áfram að minnka,“ segir Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar. „Samhliða því mun rennsli fyrst vaxa og um miðja þessa öld mun rennsli ná hámarki og haldast hátt í töluverðan tíma. En svo er því spáð að eftir 200 ár verði jöklarnir horfnir.“
Það er ykkar spá?
„Það er okkar spá og spá annarra líka. Þetta tengist loftslagsbreytingum og þeirri hlýnun sem allir eru að verða varir við.“
Óli Grétar segir að á næstu misserum þurfi Landsvirkjun að ákveða hvort fyrirtækið ætlar að nýta þau tækifæri sem fylgja auknu rennsli undan jöklum. Nauðsynlegt sé að ráðast í töluverða fjárfestingu ef fullnýta eigi það vatnsafl.
Meiri úrkoma í framtíðinni
Eftir því sem jöklanir bráðna hraðar á næstu áratugum, eykst afrennslið og þar með orkuframleiðsla Landsvirkjunar.
„Og í núverandi kerfi erum við að vinna um það bil 8% meiri orku úr núverandi kerfi, bara með þessari rennslisaukningu sem við höfum verið að sjá. Og við gerum ráð fyrir að við getum áfram nýtt okkur þessa rennslisaukningu á næstu áratugum,“ segir Óli Grétar.
Þannig að Landsvirkjun hagnast á því, allavega um stundarsakir, að jöklar séu að bráðna tiltölulega hratt?
„Já það passar.“
En það er ef til vill skammgóður vermir, því eftir því sem jöklarnir minnka, kemur stöðugt minna vatn undan þeim. En á móti kemur að með hlýnandi veðri eykst úrkoma, sem kemur sér vel fyrir þá sem reka vatnsaflsvirkjanir.
„Það er almennt þannig að eftir því sem það hlýnar getur loftið innihaldið meiri raka,“ segir ÓIi Grétar. „Og það er gert ráð fyrir því að úrkoma verði meiri og tíðari. Spárnar spá því líka.“
Aukin rigning kemur þó aldrei alveg í stað jöklanna, segir Óli Grétar. Með aukinni vindorkuframleiðslu, sem Landsvirkjun stefnir að, megi þó hugsanlega komast nálægt því. Þá sé hægt að nýta vindorku í hvassviðri en þegar vindur sé minni sé hægt að tappa meira af uppistöðulónum.
„Af því að við erum með þennan sveigjanleika, þá getur það hentað mjög vel ef fólk er að fara í mikla uppbyggingu á til dæmis vindorku, þar sem þú þarft mikinn sveigjanleika á móti því afli eða þeirri orku sem kemur frá vindorkuverum,“ segir Óli Grétar.