Þorgrímur Þráinsson er maður sem vill láta gott af sér leiða. Hann ber lof á æsku landsins, sem verði að huga vel að frá byrjun, er bjartsýnn á framtíðina ef okkur auðnast að vanda okkur betur við uppeldi og fræðslu. Þorgrímur er líklegur forsetaframbjóðandi, vill hvetja fólk til dáða, eins og fram kom í viðtali við hann á Morgunvaktinni á Rás 1.
„Það er frábært að fá tækifæri til að hitta unga lesendur“, segir Þorgrímur Þráinsson sem sendi frá sér sína 31 bók fyrir jól, „Ég elska máva“. Hann hefur haldið fyrirlestra í skólum síðustu tvo áratugina og ber ungu fólki í dag vel söguna, segir það að mörgu leyti heilbrigðara en fyrri kynslóðir: upplýstara, áhugasamara, öruggara með sig, það reyki síður og drekki minna. Eina sem stöðvað gæti æskuna sé skortur á sjálfstrausti, að kunna að bera sig eftir hlutunum. „Krakkar í dag eru dálítið fljótir að gefast upp, í íþróttum og námi, þegar þau lenda í mótlæti. Engu að síður er þessi kynslóð gríðarlega flott“, segir Þorgrímur Þráinsson.
Hann hefur eins og margir aðrir áhyggjur af læsi meðal barna. Rithöfundar sem heimsæki skóla finni fyrir þörfinni til að hvetja börnin til dáða og í þeim efnum geti þeir gegnt miklu hlutverki, hjálpa nemendum við skapandi skrif. Vitundarvakning sé í þjóðfélaginu um þessi efni – en við getum gert betur. Sinna þurfi þessum aldurshópi miklu betur og veita nauðsynlega aðstoð og órofa athygli á unga aldri.
Þorgrímur Þráinsson vitnaði á Morgunvaktinni til reynslu konu sem sinnir ungbarnaeftirliti, sem sagði frá tilfinningarofi milli móður og barns, sem hún hefur á brjósti, vegna þess að hún notar tímann við brjóstagjöfina til að vera á Facebook – í stað þess að horfa í augu barnsins. Þá rofnar eitthvað. „Við þurfum að vanda okkur betur“, segir Þorgrímur, sem sjálfur er meðvitaður um að vera góð fyrirmynd.
Hann hefur verið í landsliðsnefnd karla hjá KSÍ síðustu átta árin og er mjög bjartsýnn um gengi liðsins í úrslitakeppninni í Frakklandi í sumar. „Þegar reynir mikið á stöndum við okkur best“. Frammistaða einstakra manna í dag geti valdið áhyggjum, en þegar hópurinn komi saman í vor eigi allt eftir að smella saman.
Á sama tíma togast á í Þorgrími sjálfum viljinn til að fylgja landsliðinu fram að úrslitastund en vera á sama framboði til embættis forseta Íslands. „Mér finnst landsliðið í fótbolta mikilvægara en ég sem forseti. Ég meina það heilshugar“. Hann hefur ekki tekið endanlega ákvörðun um framboð, sagt að það sé 95% öruggt. „Mér þykir fínt að eiga útgönguleið“, segir Þorgrímur og hlær. En eins og mál standa eru verulegar líkur á að rithöfundurinn og knattspyrnuhetjan úr Ólafsvík gefi kost á sér.
Hann lítur á það sem sitt hlutverk að hvetja fólk til dáða, til sjálfshjálpar. „Mig langar til að nota embættið til góðra verka. Við tölum alltof mikið um að breyta heiminum. Heimurinn breytist ekki nema að við breytum okkur sjálfum. Við eigum að taka til hjá okkur sjálfum. 95% Íslendinga eru jákvæðir, frábærir, skemmtilegir, en þeir eru oft kæfðir af 5% þjóðarinnar, sem eru neikvæðir, sífellt röflandi, óánægðir með eigin stöðu í lífinu, bitrir og reiðir. Og þessi 95% hætta sér alltof sjaldan í umræðuna af því þau eru skotin í kaf“, sagði Þorgrímur Þráinsson á Morgunvaktinni.