Ef einhver deyr af óljósum ástæðum inni á spítala á að kalla til lögreglu. Þetta er mat Birgis Jakobssonar, landlæknis. Hann segir mikilvægt að embættið sé afdráttarlaust og tali tæpitungulaust þegar það gefur álit sitt. Hann segir ákveðna menningu innan heilbrigðisþjónustunnar þar sem fólki reynist erfitt að viðurkenna mistök - verið sé að vinna gegn henni.

Fjallað var um mál Sigríðar Eyrúnar Friðriksdóttur og Karls Olgeirs Olgeirssonar í Kastljósi í gærkvöld. Þar kom fram að Nói Hrafn, sonur þeirra, hefði látist af völdum alvarlegs heilaskaða sem hann varð fyrir í fæðingu nokkrum dögum fyrr. Snemma hefði orðið ljóst að mistök hefðu átt sér stað í fæðingunni.   

Sigríður og Karl leituðu til Landlæknis í maí í fyrra og lögðu fram kvörtun í þrettán liðum.  Hún tók meðal annars til rangrar meðferðar og rangs áhættumats, skorts á viðbrögðum, ófullnægjandi skráninga og þess að gögn hefðu glatast.

Landlæknir var nokkuð afdráttarlaus í áliti sínu sem vitnað var til í Kastljósi - heilbrigðisstarfsmönnum hefði orðið á vanræksla og mistök sem hefðu valdið óafturkræfum heilaskaða drengsins og orðið honum að aldurtila. Auk þess hefðu heilbrigðisstarfsmenn sýnt foreldrunum ótilhlýðilega framkomu.

Birgir Jakobsson, landlæknir, var gestur Morgunútvarpsins í morgun. Hann sagðist ekki geta tjáð sig um þetta einstaka mál en sagði þó: „Mér finnst mjög mikilvægt að vera afdráttarlaus og tala um það sem hefur gerst tæpitungulaust og síðan verður að taka á þeim málum. Það er náttúrulega ekki gott ef veitandi heilbrigðisþjónustu beitir meiri kröftum í að andmæla niðurstöðu landlæknis en að takast á við þau vandamál sem maður hefur.“

Birgir segir ákveðna menningu innan heilbrigðisþjónustunnar sem hann kallar „shame and blame“ - að kenna um. „Og þar af leiðandi hefur fólk átt erfitt með að viðurkenna mistök. Það er ákveðin tilhneiging hjá eftirlitsaðilum og í heilbrigðiskerfinu að reyna að komast burtu frá þessu og reyna að nota mistök til að læra af þeim. Þá er mikilvægt að tilkynna öll mistök og takist á við þau þegar þau gerast en ekki fara í varnarleik í fyrstu.“

Í Kastljósi kom fram að Landspítalinn hefði ekki tilkynnt lögreglu um dauða barnsins en lög kveða skýrt á um að tilkynna skuli slík mál. Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, sagði lögin óskýr og undir það tekur Birgir að einhverju leyti.  „Ég er alveg sammála spítalanum í því að það er ekki alltaf augljóst hvenær eigi gera það. Þegar það er ekki alveg augljóst er það mitt mat að það eigi að tilkynna það oftar en ekki.“

Með því sé hægt að ganga úr skugga um það, eins fljótt og auðið er, hvort eitthvað brotlegt hafi átt sér stað. „Það eru dæmi til þess að brot hafi gerst innan heilbrigðiskerfisins og þá er það lögreglunnar að rannsaka það strax. Ég held að þetta verði oft matsatriði og það er ekki þannig að það þurfi ekki að tilkynna öll alvarleg atviki til lögreglu því það er oft augljóst hvað hefur gerst.“

Hann segir þó að ef einhver látist af óljósum aðstæðum og grunur um að það sé af völdum einhvers inni á sjúkrahúsinu eigi að kalla til lögreglu til vettvangsrannsóknar.  „Þetta hefur verið óljóst og við þurfum að athuga að það hefur verið starfshópur sem hefur verið að ræða þetta. Og við höfum verið að ræða við lögregluna um hver geri hvað og hvenær.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Birgi í heild í spilaranum hér að ofan.