Birgir Jakobsson landlæknir og fyrrverandi forstjóri Karólínska sjúkrahússins, lét ítalskan lækni á spítalanum fara eftir barkaígræðslu sem er í lögreglurannsókn. Hann segir það mjög sjaldgæft, að forstjóri sjúkrahúss grípi til slíkra aðgerða.
Lögreglan í Svíþjóð hefur til rannsóknar barkaígræðslu sem gerð var á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi árið 2011. Erítreumaður, sem búsettur var á Íslandi, fór í aðgerðina, en lést rúmum tveimur árum síðar. Birgir Jakobsson landlæknir var forstjóri Karólínska sjúkrahússins þegar aðgerðin var gerð, en hafði látið af störfum þegar lögreglurannsókn hófst.
„Þegar var ákveðið að fara út í þessa aðgerð þá var það náttúrulega fyrir tilstilli eða beiðni frá Íslandi, íslenskum læknum, um að gera allt sem hægt væri að gera til þess að bjarga dauðvona sjúklingi,“ segir Birgir.
Ítalskur læknir, Paolo Macchiarini, gerði aðgerðina. Hann er sakaður um að hafa falsað niðurstöður hennar og gert fjölda slíkra aðgerða í kjölfarið. Margir sjúklinganna eru látnir. Birgir vill þó ekki fella dóm yfir Macchiarini.
„En hann hafði stöðu á sjúkrahúsinu til ákveðins tíma, ég held að það hafi verið 1. nóvember 2013. Og ég fór þá inn og neitaði að framlengja þeirri ráðningu lengur. Og það er eiginlega einsdæmi að sjúkrahússtjóri gangi inn og neiti ráðningu fólks á spítalanum í klínískri vinnu,“ segir Birgir.
Upphaflega hafi staðið til að framlengja samningnum, en þar sem árangur Macchiarinis hafi verið slæmur hafi þessi ákvörðun verið tekin.