Landspítalinn hefur hafið rannsókn á því hvað gerðist þegar maður lést eftir að hafa verið sendur heim af bráðamóttökunni. Landlæknir krefst skýringa á því hvers vegna Landspítalinn tilkynnti ekki um atvikið. Spítalinn ætlar að senda tilkynninguna fyrir dagslok. Hefja þurfti meðferð á sjúklingi í sjúkrabíl í nótt vegna plássleysis á bráðamóttökunni.
Páll Heimir Pálsson, krabbameinssjúkur maður með blóðtappa, var sendur heim af bráðamóttöku Landspítalans í nóvember, að því er virðist vegna álags á deildinni. Hann lést skömmu síðar. Bryndís Skaftadóttir, ekkja hans, sagðist í fréttum í gær hafa fengið þau svör á spítalanum að hann hefði verið ranglega greindur og útskrifaður of snemma.
Þær upplýsingar fengust frá Landspítalanum í dag að málið hafi verið skráð sem alvarlegt atvik í dag og að það færi í svokallaða rótargreiningu í kjölfarið. Ekki fengust upplýsingar um það hvers vegna atvikið var ekki skráð fyrr en í dag, en einn og hálfur mánuður er síðan Páll Heimir lést.
Ber að tilkynna um óvænt atvik
Þær upplýsingar fengust frá embætti landlæknis í dag að atvikið hafi hins vegar ekki verið tilkynnt þangað. Í svari embættisins við fyrirspurn fréttastofu segir:
„Landlæknir heyrði fyrst af málinu í fjölmiðlum um síðastliðna helgi. Í dag hefur landlæknir óskað eftir skýringum á því hjá Landspítala af hverju málið hefur ekki verið tilkynnt, enda segir í 10 gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu að heilbrigðisstofnunum beri að tilkynna landlækni án tafar um óvænt atvik.“
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum á fimmta tímanum í dag verður tilkynning um málið kláruð fyrir dagslok og send embætti Landlæknis í fyrramálið.
Og það er ekkert lát á álagi á bráðadeildum Landspítalans. Þar voru í dag 47 sjúklingar sem biðu innlagnar á aðrar deildir, en komust ekki að. Þá kom upp atvik í nótt þar sem skoða þurfti sjúkling og hefja meðferð í sjúkrabíl, vegna þess að ekki var pláss á bráðamóttökunni.