Í umhverfispistli dagsins fjallar Hafdís Hanna um nýjustu skýrslu IPPC, Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.


Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna skrifar: 

Á sumrin finnst mér ómissandi að fara í tjaldútilegu. Ég vil allra helst njóta sumarsins á Íslandi því mér finnst fátt jafnast á við bjartar sumarnætur, blómstrandi holtasóley, fuglasöng og öræfakyrrð. Þann 29. júlí síðastiðinn var ég stödd í tjaldferðalagi með fjölskyldunni á Kjalvegi. Ólíkt því sem við höfum áður upplifað á tjaldferðalögum þá var golan heit þegar við tókum okkur nestispásu við skála Ferðafélags Íslands við Hvítarnes.

Þegar við stigum upp í bílinn til halda för okkar áfram til Kerlingafjalla sáum við svart á hvítu að það var í raun mjög hlýtt. Hitamælirinn sýndi 27°C – ég trúði ekki mínum eigin augum. Aldrei hef ég séð viðlíka hitatölu á Íslandi – sér í lagi ekki upp á miðju hálendi. Það var eitthvað skrítið að vera að kafna úr hita á Kjalvegi.

Það var því sérstök tilviljun að þennan sama dag – þ.e. 29. júlí 2019 – hafi komið fréttir um að við jarðarbúar höfðum þá þegar nýtt þær auðlindir jarðar sem við áttum efni á að nýta þetta árið. Í mörg ár hefur þetta verið reiknað út og aldrei fyrr hefur þessi svokallaði þolmarkadagur verið jafn snemma árs. Frá heita deginum á Kili - 29. júlí – höfum við því safnað auðlindaskuldum sem komandi kynslóðir þurfa að greiða.

Fyrir rúmri viku kom út enn ein svört skýrsla um ástand jarðar og er þessi skýrsla á vegum milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar – en sú nefnd er helst þekkt undir skammstöfun sinni; IPCC. Skýrslan sýndi svo ekki verður um villst að þessi gegndarlausa skuldasöfnun okkar vegna ofnýtingar auðlinda jarðar hefur afleiðingar – fyrir loftslagið, landið og fæðuöryggi í heiminum.

Einhverjir gætu hugsað – er þetta ekki bara einhver áróðurskýrsla? Svarið er nei – og ég skal útskýra af hverju.

IPPC, Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, stundar ekki rannsóknir sjálf heldur hefur það hlutverk að taka saman nýjustu upplýsingar um stöðu þekkingar á loftlagsbreytingum af mannavöldum, fjalla um afleiðingar þeirra og hvernig er hægt að sporna við og aðlagast þeim. Úttektir nefndarinnar hafa mikla alþjóðlega vigt í umræðunni um loftslagsbreytingar. Þær eru að langmestu byggðar á greinum sem birtar eru í viðurkenndum vísindatímaritum og koma þúsundir manna alls staðar að úr heiminum að vinnu nefndarinnar. Þeir fjöldamörgu vísindamenn sem rýna vísindaniðurstöður fyrir úttektir nefndarinnar gera það í sjálfboðavinnu og áður en úttektirnar eru birtar hafa þær farið í gegnum opið og gagnsætt rýnisferli sérfræðinga og ríkisstjórna um allan heim til að tryggja hlutlaust mat á stöðu loftslagsmála í heiminum.

Úttektir nefndarinnar eru því engin áróðursplögg heldur sýna þær stöðuna eins og hún er og hvað búast má við að gerist á næstu árum og áratugum ef við náum ekki að halda loftslagsbreytingum í skefjum.

Þess vegna ættum við að taka mikið mark á úttekt milliríkjanefndarinnar – og við ættum að bregðast við henni af fullri alvöru.

En hvað kom fram í skýrslunni?

Í skýrslunni kom fram að hlýnun jarðarinnar hefur gert hitabylgjur verri og tíðari og aukið tíðni og ákefð úrhellisrigninga á heimsvísu. Einnig kom fram að loftslagsbreytingar auka landeyðingu og hafa slæm áhrif á fæðuöryggi.

Aukin hlýnun mun auka tíðni og alvarleika þurrka og hitabylgna. Einnig er hætta á vatnsskorti, gróðureyðingu og jarðvegsrofi. Ennfremur má gera ráð fyrir að sífreri þiðni og að meira tjón verði vegna gróðurelda.

Þessir þættir ásamt auknum styrk og tíðni aftakaveðra geta truflað fæðukeðjuna og þar með matvælaframleiðslu. Með þessu móti geta loftlagsbreytingar leitt til hærra matvælaverðs, minna fæðuöryggis og aukið hættu á hungursneiðum.

Síðast en ekki síst geta loftslagsbreytingar aukið fólksflutninga vegna umhverfisálags, bæði innan þjóða og milli þeirra.

Kæri hlustandi – ég vona að þú sért ekki búinn að skipta um útvarpsstöð. Þessi upptalning er vissulega niðurdrepandi og kvíðavaldandi.

En við skulum ekki örvænta.

Ólíkt sumum öðrum skýrslum sem komið hafa út að undanförnu um ástand jarðarinnar, þá er í þessari skýrslu líka bent á fjölmargar mögulegar mótvægisaðgerðir sem og fjallað um hvernig við getum best aðlagast þeim breytingum sem munu verða.

Landið getur nefnilega bæði verið hluti af vandanum og lausninni þegar kemur af loftlagsmálum.

Þegar við nýtum landið á þann hátt að það getur ekki staðið undir því – oft kallað ósjálfbær landnýting – þá erum við að ganga á höfuðstólinn. Landeyðing eykst og frjósemi jarðvegsins minnkar. Land í slæmu ástandi losar gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið og eykur enn á hlýnun jarðar.

Með því að endurheimta landgæði, græða upp illa farið land og hindra það að næringarríka moldin fjúki á haf út – þá náum við margþættum markmiðum. Jarðvegur og gróður bindur kolefni og verndun hans og endurheimt er því öflug mótvægisaðgerð gegn loftlagsbreytingum.

Land í góðu ástandi með næringarríka mold getur einnig staðið undir meiri matvælaframleiðslu og því bætt fæðuöryggi í heiminum.

Það er mjög mikilvægt að við nýtum landið á sjálfbæran hátt og pössum uppá að ganga ekki á höfuðstólinn. Með því móti getum við komið í veg fyrir og minnkað landeyðingu og viðhaldið framleiðni auk þess sem sjálfbær landnýting hjálpar til við að aðlagast og bregðast við loftlagsbreytingum. Svo má ekki gleyma að það er margvíslegur fjárhagslegur ávinningur sem fylgir því að snúa við landeyðingu.

Í úttekt milliríkjanefndarinnar kemur fram mikilvægi þess að ráðast strax í aðgerðir. Með því móti er mun líklegra að við getum aðlagast og mildað áhrif loftlagsbreytinga til lengri tíma, auk þess sem við gætum tekist á við landeyðingu og fæðuóöryggi.

Með því að hefjast handa strax minnkum við einnig þann kostnað sem fer í mótvægisaðgerðir og aðlögun að loftslagsbreytingum. Ávinningurinn felst ennfremur í því að lífsviðurværi fólks verður tryggara og að fátækt minnkar hjá jaðarsettum og fátækum þjóðfélagshópum.

Landgræðsla bætir lífsviðurværi fólks, er til góðs fyrir efnahagslífið og hefur langtímaáhrif sem milda loftslagsbreytingar og áhrif þeirra og auðvelda aðlögun að þeim.

Nú þekkjum við stöðuna. Við vitum hver tengsl loftlagsbreytinga eru við landið – landeyðingu, landnýtingu og fæðuöryggi. Við vitum að rýrt land losar kolefni en land í góðu ástandi bindur kolefni. Við þekkjum jákvæð áhrif þess að ganga ekki á auð landsins – höfuðstólinn – nýta landið á sjálfbæran hátt en með því móti minnkum við landeyðingu, viðhöldum framleiðni og hjálpum til við að aðlagast og bregðast við loftslagsbreytingum. Og við vitum að með því að endurheimta jarðveg og gróður þá bætum við fæðuöryggi.

Þá er að hefjast handa. Hér á landi er verið að vinna margt gott starf við að endurheimta landgæði en betur má ef duga skal.

Í sambandi við landið og loftslagsbreytingar, þá finnst mér þrjú atriði skipta mestu máli:

Í fyrsta lagi að bæta landnýtingu og hætta að nýta illa farið land til beitar.

Í öðru lagi að græða upp illa farið land og endurheimta og vernda birkiskóganna okkar.

Og í þriðja lagi, endurheimta votlendi til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en framræst votlendi losar gríðarmikið af gróðurhúsalofttegundum.

Gerum þetta saman og samtaka. Það er ekki of seint.

 

Heimildir:

Skýrsla IPCC: https://www.ipcc.ch/site/assets/uploads/2019/08/4.-SPM_Approved_Microsite_FINAL.pdf

Útdráttur á íslensku: https://www.vedur.is/media/frettir/myndasafn/IPCC_SRCCL_Thyding_Frumdrog_LOKA_09082019.pdf