Synjun íslenska ríkisins á lögfestingu þriðja orkupakkans myndi leiða til fordæmalausrar stöðu. Hún hefði í för með sér mikla lagalega og pólitíska óvissu sem myndi setja framkvæmd EES samningsins í uppnám. Þetta er álit Alþjóða- og Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík. Hún telur jafnframt að synjun á að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara fæli í sér algjört neyðarúrræði.

Heimildinni aldrei verið beitt

Stofnunin samdi álitið fyrir utanríkisráðuneytið sem vildi fá svör við því hvaða afleiðingar það hefði að Alþingi samþykkti ekki þriðja orkupakkann eða synjaði stjórnskipulegum fyrirvara vegna hans eins og það heitir á lagamáli. Margrét Einarsdóttir, dósent við lagadeild HR, segir að  á grundvelli EES-samningsins hafi EFTA-ríkin, Ísland, Noregur og Lichetenstein vissulega heimild til að hafna upptöku löggjafar í samninginn.

„Þeirri heimild hefur í 25 ára sögu EES-samningsins aldrei verið beitt því að afleiðingar þess að beita henni geta verið alvarlegar. Bæði lagalegar og ekki síður pólitískar," segir Margrét

Ekkert fordæmi

Í álitinu er farið yfir lagalegar afleiðingar þess að aflétta ekki stjórnskipulegum fyrirvara. Margrét segir að í fyrsta lagi sé ljóst að þriðji orkupakkinn tæki hvorki gildi gagnvart Íslandi né Noregi og Lichetenstein.

„Í öðru lagi myndi slík synjun að öllum líkindum leiða til þeirra viðbragða Evrópusambandsins að það myndi segja upp viðauka samningsins um orkumál til bráðabirgða. Annað hvort að hluta eða að öllu leyti. Það er ekkert fordæmi fyrir þessu og þess vegna vitum við ekki hversu víðtæk synjunin yrði," segir Margrét.

Þetta myndi gilda líka gagnvart Noregi og Lichtenstein sem eru þegar þátttakendur í sameiginlegum orkumarkaði ESB. Í raun er verið að tala um að ýmis önnur atriði gætu fallið úr gildi sem samþykkt voru á sínum tíma vegna fyrsta og annars orkupakkans. Margrét segir að þetta gæti haft mikil áhrif á bæði einstaklinga og fyrirtæki hér á landi. Hún nefnir t.d. samning fyrirtækja um sölu upprunaábyrgða. Tilgangur þeirra sé að skapa fjárhagslegan hvata til að framleiða orku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Fyrirtæki hér á landi séu að selja þessar ábyrgðir. Frestun myndi hafa í för með sér tjón fyrir þessi fyrirtæki. Hún nefnir fleiri gerðir sem gætu fallið niður og sem hefðu áhrif hér á landi.

Alþingi fjallað um málið frá 2013

Í álitinu er bent á að þriðji orkupakkinn hafi verið lengi í meðförum Alþingis og stjórnvalda. Allt frá mars 2013 hefur verið fjallað um hann í nefndum Alþingis. Utanríkismálanefnd lauk umfjölluninni 2016 með áliti. Þar fylgdu líka álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og atvinnunefndar. Margrét bendir á þetta sé langur tími. Börn sem fæddust þegar umfjöllunin hófst séu á leiðinni í 6 ára bekk í haust.

„Þannig að þetta er auðvitað mjög viðkvæmur tímapunktur eftir allt þetta ferli í þessum ríkjum og allan þennan tíma til að hafna upptökunni," segir hún.

Sæstrengur á forræði stjórnvalda

Viðbrögð ESB, ef þriðji orkupakkinn verður ekki samþykktur, verða þau að ýmsum þáttum sem tengjast viðauka um orkumál verður frestað  til bráðabirgða. Þá er eðlilegt að spurt sé hvort sameiginlega EES-nefndin geti ekki bara kallað til fundar og samið upp á nýtt. Margrét bendir á að samningar um löggjöfina hafi þegar átt sér stað. Ísland fór á sínum tíma fram á og fékk ýmis atriði samþykkt.

„Ef hugmyndin er sú að vera undanþeginn öllum orkupakkanum þá eru líkurnar á því að það náist fram algjörlega hverfandi," segir Margrét.

Aðstæðingar  þriðja orkupakkans vilja ýmsir að málinu verði vísað aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem samið verði um fyrirvara eða fengin trygging fyrir því að hér verði ekki lagður sæstrengur. 

„Það er algjörlega skýrt að það felst ekki í þessari löggjöf nein skylda fyrir íslensk stjórnvöld að leggja sæstreng. Það er á forræði íslenskra stjórnvalda og Alþingis. Þannig að fara aftur til baka í sameiginlegu EES-nefndina og biðja um yfirlýsingu um eitthvað sem ekki er í löggjöfinni er bara dálítið skrítið," segir Margrét.

Framsalsvaldi aldrei verið beitt

Andstæðingar orkupakkans óttast líka að vald verði framselt til eftirlitsstofnunar um orkumál í Evrópu og að það brjóti gegn stjórnarskránni. Reyndar yrði valdaframsalið til ESA í tilfelli orkupakkans. Valdaframsal hefur átt sér stað í öðrum innleiðingum vegna EES-samningsins. Í tengslum við fjármálaeftirlit, samkeppniseftirlit og persónuverndarlöggjöfina. Margrét hefur nýlega rannsakað hvort þessum valdheimildum hefur verið beitt.

„Þessum heimildum hefur aldrei verið beitt. Það er auðvitað ekki hægt að fullyrða að ESA muni aldrei beita þessum heimildum. Þetta gefur okkur engu að síður vísbendingar um umfang framsalsins. Það er stundum talað hér eins og við séum að framselja allt vald til Brussel í andstöðu við stjórnarskrána okkar. Í framkvæmd hefur aldrei komið til þess að þessum heimildum hafi verið beitt. Það má ætla að þetta sé að minnsta kosti ekki að fara að gerast oft þó ekki sé hægt að útiloka að einhvern tímann komi til þess," segir Margrét.

Nánar er rætt við Margréti í Speglinum.