„Þú þekkir einhvern betur á því að spila og leika með honum í tíu mínútur heldur en að tala við hann í tíu ár,“ segir Björn Þórisson, leiðbeinandi á námskeiðinu Nexus Noobs sem haldið er í spilasal verslunarinnar Nexus.
Nexus Noobs er hugarsmíð Soffíu Elínar Sigurðardóttur sálfræðings sem vildi búa til vettvang fyrir ungt fólk, á aldrinum tólf til tvítugs, sem hefur áhuga á vísindaskáldskap, spilum og öðru því tengdu. Þátttakendur koma saman og fá að kynnast borðspilum, safnkortaspilum, hlutverkaspilum, módelsmíði og herkænskuleikjum og einnig fræðast um vísindaskáldskap, fantasíur, myndasögur og ýmislegt fleira. „Þetta er verkefni sem ég bjó til fyrir þremur árum í samstarfi við Gísla, eiganda Nexus, um að ná inn yngri krökkunum sem hafa áhuga á jaðaráhugamálunum, nörda-áhugamálum,“ sagði Soffía Elín í viðtali við Lestina á Rás 1 og bætti við að mikil þörf hafi verið fyrir slíkan vettvang hér á landi.
Lærir á fólk í gegnum spilið
Bjarni Svanur Birgisson, leiðbeinandi hjá Nexus Noobs, sagði frá hlutverkaspilinu Dungeons and Dragons. „Það heillar mig að geta verið hvað sem þú vilt vera, þú getur búið til þinn eigin heim. Svo er það náttúrulega ævintýrið, það er að vera með fólkinu. Þú lærir svo miklu meira á fólk, hvernig það hagar sér, á því hvernig það spilar. Frekar en hvernig það hagar sér í raunveruleikanum, því það eru allir að leika þá,“ sagði Bjarni. „Þetta er að verða svolítið mainstream, þetta er ekki jaðar lengur. Kannski helst LARP-ið,“ sagði Soffía Elín.
Vinsældir rauntímaspunaspils
Lestin hefur áður fjallað um samfélag LARP-ara á Íslandi, eða kvikspunaleikara, en iðja LARP-ara er meðal þess sem kennt er á viðburðum Nexus Noobs. LARP stendur fyrir Live Action Role Playing og kallast á íslensku rauntímaspunaspil. Samfélagið hefur stækkað töluvert á síðustu árum. Félagið var stofnað árið 2013 af sex íslenskum áhugamönnum en þeim hefur sannarlega vaxið fiskur um hrygg – þegar Lestin spjallaði við nokkra kvikspunaleikara í maí á þessu ári voru virkir félagar orðnir um 50 talsins, og félagar í Facebook-hópnum 863. Björn Þórisson hefur tekið þátt í rauntímaspunaspili Nexus í fimm til sex ár, hann sagði hlustendum frá mismunandi LARP-samfélögum og spilum hér á landi. „Mér finnst bara skemmtilegt að vera einhver annar, koma með senur og svo fólkið sem maður hittir og tengslin sem myndast. Þetta er eins og sagt er, þú þekkir einhvern betur á því að spila og leika með honum í tíu mínútur heldur en að tala við hann í tíu ár,“ sagði Bjarni.
Lestin á Rás 1 fræddist um Nexus Noobs. Hlusta má á innslagið í heild hér að ofan.