Benni Hemm Hemm segir að tónlist hljómsveitarinnar kef LAVÍKur sé einhver sú besta sem hann hafi heyrt í lengri tíð. „Ég hef aldrei lent í öðru eins, að heyra sumt sem þeir hafa samið,“ segir hann en slagkraftur nýjustu plötu sveitarinnar sé ekki sá sami.
Rætt var um nýjustu skífu hljómsveitarinnar kef LAVÍKur í Lestarklefanum. Nafn hennar er Blautt Heitt Langt Vont Sumar og er fyrsta skífa sveitarinnar í fullri lengd. Benni Hemm Hemm tónlistarmaður var á meðal gesta í þættinum og sagði fullum fetum að tónlist kef LAVÍKur væri það besta sem borist hefur í eyru hans í mörg ár. „Ég hef hlustað mjög mikið á þá og mér finnst þetta frábær hljómsveit.“
Hann segir að skífan sé frábrugðin því sem sveitin hefur áður sent frá sér og hún sé ekki eins ágeng. „Það eru svo margar setningar á eldri plötunni þeirra þar sem manni verður óglatt eða svimar. Ég hef aldrei lent í öðru eins – að heyra sumt sem þeir hafa samið.“
Aðrir gestir þáttarins voru einnig hrifnir af tónlist kef LAVÍKur. Ólöf Ingólfsdóttir dansari segir að að platan sé líkust ljóðabók. „Mér fannst textarnir vera mikilvægari en hljóðin. Nú er ég ekki að gera lítið úr tónlistinni en mér fannst eins og textarnir væru það sem þeir vildu koma á framfæri.“ Hljómsveitin hefur vissulega sagst vera undir nýrómantískum áhrifum og var Anna María Bogadóttir arkitekt sömuleiðis hrifin af ljóðrænunni. „Ég tek undir þetta, textarnir, orðin, ljóðin sátu í mér.“
Benni segir að textar kef LAVÍKur, einkum á stuttskífunni Ágæt ein: Lög um að ríða og/eða nota eiturlyf, lýsi myrkasta skúmaskot hugans. „Að hlusta á lögin á eins og að drekka hreinan engifersafa. Þetta er svo rosalega „hardcore“. En tónlistin er svo ljúf á að heyra og rosa mikill húmor um mjög ógeðslega hluti. Blóð og gubb út um allt og herbergið lyktar af bjór og kynlífi. Ég held að ekkert á þessari plötu hafi kýlt mig í magann eins og sumt á eldri plötunni þeirra. Sem ég held að ég sakni pínu. Mér finnst svo magnað að geta kýlt mann í magann með því að búa til setningu. Það er ekkert hver sem er sem getur það.“
Lestarklefinn er umræðuþáttur um menningu og listir. Í þættinum var einnig rætt um dansverkið Þel eftir Katrínu Gunnarsdóttur hjá Íslenska dansflokknum, yfirlitssýningu á verkum Magnúsar Pálssonar í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur og loks plötuna Blautt Heitt Langt Vont Sumar með hljómsveitinni kef LAVÍK. Þáttinn í heild má sjá í sjónvarpsspilara RÚV.