Saga íslenskra sjónvarpsauglýsinga spannar yfir hálfa öld og er samofin fyrstu útsendingum Sjónvarpsins. Fyrstu auglýsingarnar voru misjafnar að gæðum en vöktu ávallt mikla athygli. Jón Þór Hannesson kom að framleiðslu margra þeirra og rifjar upp sokkabandsár sjónvarpsauglýsinga á Íslandi.
Ein þekktasta sjónvarpsauglýsing sjöunda áratugarins var gerð fyrir Kóróna jakkaföt. Hún var gerð í anda njósnamynda og þar naut Bessi Bjarnason gríðarlegrar kvenhylli. Jón Þór Hannesson rifjar upp þessa þekktu auglýsingu í Djöflaeyjunni og segir frá því að þjóðin beið í eftirvæntingu á ári hverju eftir auglýsingunum frá Happdrætti Háskólans. Á þessum tíma voru það svo hringarnir frá Halldóri gullsmið á Skólavörðustíg sem áttu að bera með sér mikla gæfu og Skip þvottaefni gerði þvottinn suðuhvítan.
Sokkabandsár íslenskra sjónvarpsauglýsinga í Djöflaeyjunni.