Landvernd hefur kvartað til ESA vegna breytinga á lögum um fiskeldi. Samtökin eru mjög ósátt við framgöngu Vinstri grænna og segja að í undirbúningi sé nýtt, umhverfissinnað stjórnmálaafl.
Fyrir rúmum mánuði samþykkti Alþingi frumvarp sjávarútvegsráðherra, sem veitir honum heimild til að veita rekstrarleyfi í fiskeldi til bráðabirgða. Tilefnið var að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi rekstrar- og starfsleyfi Fjarðarlax og Arctic Sea til laxeldis í sjókvíum á Vestfjörðum, auk þess að vísa frá beiðni fyrirtækjanna um frestun réttaráhrifa. Landvernd kvartaði í morgun til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, vegna þessarar lagabreytingar. Samtökin telja lögin og málsmeðferðina brot á reglum EES-samningsins og brot á Árósasamningnum, sem fjallar um réttláta málsmeðferð í umhverfismálum.
„Varðandi lögin sjálf, þá er ekki gert ráð fyrir að almenningur eða samtök hafi nokkra möguleika á því að koma að ákvörðun um bráðabirgðaleyfi, sem er klárt brot á Árósasamningnum og lögin gera heldur ekki ráð fyrir því að það sé hægt að kæra bráðabirgðaleyfin þó þau geti gilt í 20 mánuði. Síðan þótti okkur málsmeðferðin vera mjög alvarlegt brot á Árósasamningnum þar sem málið var keyrt í gegn nánast á einu kvöldi, algjörlega án umræðu þar sem umhverfisverndarsamtök höfðu engan möguleika á að koma að þessari ákvörðun,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar. Þá telja samtökin að með lagasetningunni sé vegið að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Gífurlega mikill þrýstingur
Auður segir að fjölmargir umhverfisverndarsinnar séu hissa á því að Vinstri græn hafi ekki beitt sér gegn lagasetningunni, enda hafi flokkurinn haft mjög mikið með það að gera að Árósasamningurinn var fullgiltur.
„Þannig að þetta hleypir mjög illu blóði í marga. Okkur finnst umhverfismálin ekki hafa fengið nægjanlega rödd á Alþingi.“
Því segir Auður að umhverfissinnar hafi rætt um að stofna nýtt, umhverfissinnað stjórnmálaafl.
„Það eru einhverjar þreifingar í gangi en ég veit ekki hvort það verður eitthvað úr því.“
Þreifingar þá um að stofna nýjan, umhverfissinnaðan stjórnmálaflokk?
„Já eða setja gífurlega mikinn þrýsting á hina flokkana um að þeir verði að taka umhverfismálin mjög alvarlega núna,“ segir Auður.