Kristján Viðar Júlíusson krefst þess að íslenska ríkið greiði honum rúmlega einn komma sex milljarða króna vegna óréttar, tjóns og miska sem hann varð fyrir í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Kristján Viðar telur sig meðal annars eiga rétt á bótum vegna þess að hann var sekur maður að ósekju í tæp 40 ár, auk þess að hafa setið inni í sjö og hálft ár. Í kröfunni kemur einnig fram að ríkið hafi bakað sér bótaskyldu með blaðamannafundi sem haldinn var árið 1977.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði í gær fram frumvarp um heimild til að greiða bætur vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Heildarfjárhæð bóta liggur ekki fyrir, en tekið er fram í frumvarpinu að stjórnvöld hafi rætt um að greiða fimmmenningunum sem sýknaðir voru og aðstandendum þeirra samtals tæplega 800 milljónir króna í bætur.
Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Kristjáns Viðars Júlíussonar, eins fimmmenninganna, fagnar þessu frumvarpi.
„Ég lít á þetta sem gott skref. Ég lít á þetta sem innágreiðslu inn á bótakröfu míns umbjóðanda. En þetta nægir ekki til að bæta hans tjón, fjarri því. Og það verður þá bara sótt í dómsmálinu, afgangurinn af tjóninu.“
Þannig að frumvarpið breytir engu um væntanlega stefnu ykkar?
„Nei. Ég er búinn að reikna þessa bótaliði út eftir ákveðnum aðferðum. Og þetta er nokkuð fjarri því sem sá útreikningur leiðir í ljós. Það verður þá bara að sækja það sem eftir er í dómsmáli. Það er ekki annað í boði,“ segir Arnar Þór.
Sekur að ósekju í 40 ár
Guðjón Skarphéðinsson er sá eini af fimmmenningunum sem hefur þegar stefnt ríkinu. Hann krefst eins komma þriggja milljarða króna í bætur, en hann var sviptur frelsinu í samtals tæplega fimm ár.
Kristján Viðar var á sínum tíma dæmdur í 16 ára fangelsi og var samtals sviptur frelsinu í sjö ár, fimm mánuði og tvo daga. Þegar hlé var gert á viðræðum sáttanefndar og ríkislögmanns við hina sýknuðu og eftirlifandi maka þeirra og börn í vor, hljóðaði boð ríkisins til Kristjáns Viðars upp á 204 milljónir. Arnar Þór hefur nú sent ríkislögmanni kröfubréf, þar sem þess er krafist að ríkið greiði honum 1.624.763.720 krónur vegna óréttar, tjóns og miska sem hann varð fyrir í tengslum við málið.
„Stærsti liðurinn er auðvitað sá, að vera sviptur frelsi í alla þessa daga,“ segir Arnar Þór. „Það er ákveðin aðferðafræði, hvað skal dæma fyrir hvern dag í því. Síðan eru aðrir liðir einnig. Það er til dæmis það að vera dæmdur sekur og að vera sekur í 40 ár, sem er svo ekki leiðrétt fyrr en 40 árum síðar. Það er einn bótaliðurinn.“
Arnar Þór byggir þann lið á ákvæði í mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem segir að sá sem hefur verið dæmdur sekur í lokadómi, en er síðar sýknaður vegna þess að ný eða nýupplýst staðreynd sýnir ótvírætt að réttarspjöll hafa orðið, skuli fá bætur. Þá telur Arnar Þór að ríkið hafi bakað sér bótaskyldu vegna blaðamannafundar sem haldinn var fyrir 42 árum.
„Ég er einnig að horfa til þess að á þessum blaðamannafundi 1977, þá var því lýst yfir að málið væri upplýst. Þetta er blaðamannafundur þýsks rannsóknarlögreglumanns, Karl Schütz, og í kjölfarið lýsir dómsmálaráðherra því yfir að martröð sé létt af þjóðinni. Þetta gerist löngu áður en Hæstiréttur dæmir í málinu. Þannig að með þessu var verið að fordæma fólkið. Og það leiðir til bótaréttar að mínum dómi.“
Náist ekki samningar hyggst Arnar Þór stefna íslenska ríkinu fljótlega.