Saksóknari í máli ákæruvaldsins gegn Degi Hoe Sigurjónssyni krafðist þess fyrir dómi í dag að hann yrði dæmdur til minnst átján ára fangelsisvistar. Dagur er ákærður fyrir morðið á Klevis Sula í byrjun desember í fyrra og fyrir tilraun til manndráps með því að stinga vin Sula á sama tíma.
Aðalmeðferð fór fram í máli Dags í gær og í dag. Hann gaf skýrslu í gær sem og vitni sem voru á Austurvelli. Lögreglumenn og sérfræðingar hafa komið fyrir dóminn og síðdegis fór fram málflutningur saksóknara og verjanda.
Heyrði rödd í höfði sér um sjálfssköðun
Tómas Zoëga geðlæknir var dómkvaddur matsmaður. Hann gaf skýrslu eftir hádegi í dag. „Þetta er langt frá því að vera einfalt mat,“ sagði Tómas sem ræddi nokkrum sinnum við Dag og foreldra hans auk þess að hann ræddi við lækni sem sinnti Degi. Tómas sagði að Dagur hefði strítt við ýmis vandamál frá unga aldri, svo sem þráhyggju, sjálfssköðun, tourette og ADHD.
Í máli Tómasar kom fram að Dagur hefði heyrt rödd í höfði sér frá átta eða níu ára aldri sem hvatti hann til sjálfssköðunar. Hann hefði greint móður sinni frá þessu þegar hann var fimmtán ára en ekki geðlækni sem vann með honum. Dagur hefði þá notað vímuefni og skaðað sig en lítið stundað nám eftir grunnskóla. Síðustu mánuðina fyrir nóttina afdrifaríku í desember hafi Dagur hins vegar verið í vinnu og verið að vinna í sínum málum, sagði Tómas. Dagur hefur sjálfur sagt að honum hafi í fyrsta sinn fundist sem hann væri að ná tökum á sínum málum mánuðina fyrir árásina í desember.
Ekki ósakhæfur
Tómas sagði að Dagur hefði verið miður sín á Austurvelli þegar Klevis Sula og félagi hans komu að honum í desember. Tómas hefði þá lent í rifrildi við kærustu sína og orðið viðskila við hana. Það kynni að hafa spilað inn í viðbrögð við komu mannanna að Dagur varð fyrir árás erlends manns rúmu ári áður, sagði Tómas án þess að slá því föstu að svo væri.
„Það var ekki hægt að fina bein geðrofseinkenni,“ sagði Tómas en kvað það trufla sig að Dagur segist hafa heyrt rödd frá unga aldri. Slíkt tengist stundum persónuleikaröskun. Dagur hefði þó neitað því að röddin hefði plagað sig nóttina sem Klevis var stunginn. Tómas sagði að það væri eins og Dagur hefði ekki tekið atburðina á Austurvelli inn á sig.
„Ég get ekki séð að hann uppfylli nein slík skilyrði sem þar eru,“ sagði Tómas aðspurður hvort Dagur væri ósakhæfur.
Óvenjuhress og talaði mikið
Elínborg Bárðardóttir læknir skoðaði Dag eftir árásina. Hún sagði fyrir rétti í dag að ef hún hefði orðið vör við áverka á Degi hefði hún skráð það í skýrslu. Þar sem hún gerði ekki slíkt hafi þeir annaðhvort ekki verið eða hún ekki séð þá. Verjandi sýndi henni mynd af hnakka Dags, sem segist hafa verið sleginn í höfuðið, og taldi áverka vera þar.
Elínborg sagði að sér hafi fundist Dagur svolítið óvenjulegur. Venjulega séu menn þöglir og alvarlegir en Dagur hafi verið óvenjulega hress og talað mikið. Hún sagðist ekki viss hvort það væri af völdum örvandi lyfja eða af öðrum ástæðum. Henni fannst hann ekki hafa áttað sig á því hversu alvarlegar aðstæðurnar voru.
Örstutt átök
Saksóknari fór yfir gögn málsins og vitnisburð í málflutningi sínum síðdegis. Hún sagði að Klevis Sula og félagi hans hefðu komið að honum á Austurvelli. Á myndskeiði mætti sjá að Sula hefði beygt til hliðar og farið þangað sem Dagur sat á þeim tíma. Stuttu síðar hafi mátt sjá átökin þar sem félagi Sula hafi nálgast og Dagur risið upp. Átökin hafi staðið yfir í 20 sekúndur. Sula hafi svo hlaupið burt og skömmu síðar hnigið niður. Þá hafi verið liðnar 62 sekúndur frá því hann sneri sér fyrst að Degi.
Saksóknari fór yfir framburð vitna sem sáu Dag sitjandi. Þau hafi sagt hann hafa gefið frá sér skrýtin hljóð og að þeim stæði uggur af honum. Þá hefðu Klevis og félagi hans nálgast Dag en greindi á um hvort þeir hefðu virst vera hjálplegir eða angrandi. Þá hafi eitthvað gerst og vitni séð sparkað í fót Dags. Dagur hafi svo risið á fætur og ráðist á mennina. Þar af sagðist eitt vitnið hafa séð hníf í hendi Dags. Þá vísaði saksóknari til skýrslugjafar vinar Dags sem sagði hann hafa lýst atburðum fyrir sér meðan hann var enn í uppnámi, Dagur hefði „snappað“ og stungið mennina.
Ótrúverðugur framburður
Saksóknari sagði að framburður Dags væri ótrúverðugur. Hann hefur að mestu borið við minnisleysi en segist þó muna eftir að hafa fengið höfuðhögg og að sparkað væri í hann. Saksóknari sagði að það væri athyglisvert að það eina sem rifjaðist upp fyrir Degi væru gjörðir mannanna tveggja en ekki hans sjálfs.
Vitnisburður, upptaka af vettvangi og greinargerðir sérfræðinga ber allt að sömu niðurstöðu, sagði saksóknari, að Dagur væri sekur. Hún sagði að hann hefði stungið hvorn brotaþola fjórum sinnum auk þess sem Sula hefði fengið eina eða tvær rispur í andlit og þrjú göt hefðu verið á fötum mannanna þótt stungurnar næðu ekki að særa þá. Þannig hefði Dagur að lágmarki veitt mönnunum átta og allt að þrettán stungur eða högg á tuttugu sekúndum.
Saksóknari krafðist þess að Dagur yrði dæmdur til átján ára fangelsisvistar að lágmarki. Algengasti dómur fyrir manndráp er sextán ár. Saksóknari sagði að það yrði líka að ákvarða Degi refsingu vegna árásarinnar á félaga Sula. Þar er hann ákærður fyrir tilraun til manndráps, sem við liggur fimm ára fangelsi. Saksóknari vísaði til dómsins yfir Thomasi Möller Olsen sem var dæmdur til nítján ára fangelsisvistar fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur og fíkniefnasmygl. Saksóknari sagði hendingu eina ráða að félagi Klevis hefði ekki líka fengið lífshættuleg sár.
Móðir og faðir Sula krefjast hvort um sig tíu milljóna í miskabætur auk þess sem móðirin krefst endurgreiðslu útlags kostnaðar vegna útfarar sonar síns og ferðakostnaðar vegna árásarinnar.
Ráðist á Dag
Verjandi Dags krafðist sýknu. Hann sagði óumdeilt í málinu að umbjóðandi sinn hefð setið á Austurvelli og óumdeilanlega verið í uppnámi. Hann hefði gefið frá sér hljóð meðan hann reyndi að ná stjórn á sér. Þetta væri í raun aðferð sem Dagur hefði þróað með sér til að ná tökum á líðan sinni. Þá hefðu tveir menn nálgast hann, fyrst Sula og svo félagi hans.
Verjandi Dags sagði að ljóst væri af framburði vitna að mennirnir tveir hefðu sýnt Degi yfirgang og frekju, þeir hefðu svo ráðist á hann með því að sparka í Dag og slá í höfuð hans. Þetta væri í samræmi við vitnisburð vinar Dags, um að Dagur hefði sagt að ráðist hefði verið á sig. Það væri líka í samræmi við það að Dagur neitar sök og segir að ráðist hafi verið á sig.
Dagur brást við árásinni með þeim aðferðum sem hann taldi nauðsynlegar til að tryggja öryggi sitt, sagði verjandi hans.
Verjandinn sagði að Degi hefði í fyrsta skipti fundist að hann væri á góðum stað í lífi sínu, næstu mánuði á undan árásinni. Hann hefði verið í vinnu og sambandi og farinn að huga að húsnæðismálum. Það væri því ekki hægt að gera honum það upp að hafa viljað drepa einhvern.
Skoða verði bakgrunn Dags
Verjandi Dags sagði að ekki væri hægt að fjalla um málið nema horfa á það í heild. Það yrði að líta til þess að yfir 120 blaðsíður lægju fyrir um veikindi Dags, ekki síst vegna þess að Dagur væri allur af vilja gerður til að upplýsa málið. Hann sagði líka ósanngjarnt að líta ekki til sögu Dags þótt svo hann væri ekki fundinn sakhæfur. Þannig hafi Dagur átt við langvarandi og erfið vandamál frá unga aldri, sem hafi ef eitthvað er versnað með árunum. Þar á meðal væru athyglisbrestur, hvatvísi, sjálfssköðun og tourette.
Verjandinn krafðist sýknu en til vara að refsing yrðifelld niður eða minnkuð eins og heimilt væri ef brotaþoli hefði valdið reiði eða æsingi með ólögmætum hætti. Þá yrði að taka mið af því að Dagur hefði reynt að koma sér úr þeim ástæðum sem Sula og félagi hans hefðu komið sér í með afskiptum sínum.
Þá sagði verjandinn að það væri mikilvægt að koma því yrði komið á framfæri að hann hefði ekki verið undir áhrifum fíkniefna nóttina í byrjun desember og hefði ekki neytt þeirra um langt skeið.
Verjandinn sagði að hins vegar hefðu fundist fíkniefni í blóði félaga Sula og kvaðst undrast að framganga hans eftir árásina hefði ekki verið rannsökuð af lögreglu. Hann hefði farið af vettvangi án þess að reyna að hjálpa Sula og farið heim. Þar hafi hann reynt að þvo af sér blóð og önnur verksummerki og brugðist illa við þegar lögregla og sjúkralið mætti á staðinn. Ekki hefði verið skoðuð sú leið sem hann fór til að kanna hvort þar væri eitthvað að finna sem gæti skipt máli við rannsókn málsins. Saksóknari mótmælti þessu í andmælaræðu sinni og sagði manninn hafa útskýrt hvers vegna hann fór heim. Hann hefði óttast að vera vísað úr landi þar sem hann var ekki með dvalarleyfi.
Látinn við komu á sjúkrahús
Klevis var látinn þegar hann kom á sjúkrahús en klukkustundarlangar endurlífgunartilraunir komu hjarta Klevis aftur af stað. Læknir sem sinnti Klevis við komuna mat horfurnar þó ekki góðar. Klevis var svo úrskurðaður látinn vegna heiladauða þar sem ekkert blóð barst til heila. Réttarmeinafræðingur sagði að áverki á hjarta hefði valdið hjartastoppi og verið banvænn.