„Við ætlum að afhenda ykkur þetta fyrir hönd almennings. Þetta eru kröfur almennings sem hafa komið fram í umræðunni bæði á Facebook og alls staðar í samfélaginu. Við krefjumst þess að það verði brugðist við þessu, því þið eruð þjóðkjörnir einstaklingar og þið vinnið fyir okkur,“ sagði Alexandra Kristjana Ægisdóttir, einn skipuleggjenda mótmælanna, þegar hún afhenti Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis í þinghúsinu í dag að loknum mótmælafundi á Austurvelli.
Hún segir að þarna komi fram kröfur almennings og hagsmunasamtaka fyrir hönd fólks sem vegið var að í ummælum þingmannanna sem heyrast á upptöku af samtali þeirra á bar í Reykjavík í síðustu viku.
Steingrímur þakkaði fyrir og sagðist búast við að getið yrði um móttöku þeirra í upphafi þingfundar á mánudag. „Ég vænti þess að þið munið heyra eitthvað meira af viðbrögðum Alþingis í þessu máli í upphafi fundar á mánudaginn.“