Íslenskir stúdentar söfnuðust saman á Austurvelli í hádeginu í dag í fyrsta loftslagsverkfalli ungmenna hér á landi. Þau krefjast þess að íslensk stjórnvöld bregðist við neyðarástandi í loftslagsmálum. Það voru Landssamtök íslenskra stúdenta sem boðuðu til verkfallsins, að fyrirmynd hinnar sænsku Gretu Thunberg, sem hefur komið af stað bylgju loftslagsverkfalla hjá ungmennum víða um heim. Stúdentar stefna á að mótmæla áfram í hádeginu næstu föstudaga.
„Hér eru alveg örugglega nokkur hundruð ungmenni," sagði Bjarni Pétur Jónsson fréttamaður sem var á staðnum og ræddi við Elsu Maríu Guðlaugs Drífudóttur, formann Landssamtaka íslenskra stúdenta. „Við erum hér til að slást í hóp með þessari alþjóðlegu hreyfingu ungmenna sem er að krefjast aukinna aðgerða vegna loftslagsmála," sagði Elsa María á Austurvelli en hún sagði fyrr í vikunni að það séu fyrst og fremst framhaldsskólanemar og háskólanemar sem standi að verkfallinu hér á landi. Mótmælin séu þó opin öllum. Ungmennin muni ekki láta deigan síga fyrr en stjórnvöld bregðist við.
„Þetta er málefni sem skiptir máli fyrir alla í samfélaginu. Grunnkrafan er að fjárútlát í umhverfismál séu aukin," segir Elsa María. Það hafi aðeins verið tímaspursmál hvenær íslenskir stúdentar myndu slást í hópinn með ungmennum í öðrum löndum. „Við erum bara spennt og glöð að fá að taka þátt í þessari alþjóðlegu bylgju."
2,5% fari til loftslagsmála
„Við viljum sýna stjórnvöldum að almenningur sé meðvitaður um alvarleika málsins og vilji róttækar aðgerðir, segir í yfirlýsingu stúdentanna.
Lýst er yfir stuðningi við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum til ársins 2030, sem gera meðal annars ráð fyrir kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.
„En betur má ef duga skal. Núverandi aðgerðaáætlun er ekki í samræmi við markmið um að halda hlýnun innan 1,5 gráðu á heimsvísu og við krefjumst aðgerða sem eru líklegar til að skila þeim árangri. Ljóst er að stórauka þarf fjárframlög til loftslagsaðgerða. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) reiknast til að verja þurfi 2,5% af heimsframleiðslu til loftslagsmála á ári til ársins 2035 til að halda hlýnun innan við 1,5 gráður. Núverandi áætlun er upp á 0,05% af þjóðarframleiðslu á ári næstu fimm árin."
Stúdentarnir krefjast þess að Ísland taki af skarið, hlusti á vísindamenn, lýsi yfir neyðarástandi og láti hið minnsta 2,5% af þjóðarframleiðslu renna beint til loftslagsaðgerða. Atvinnulífið verði einnig að axla ábyrgð og ákveðin viðhorfsbreyting að eiga sér stað.
Undir yfirlýsinguna skrifa fulltrúar Landssamtaka íslenskra stúdenta, Stúdentaráðs, Sambands íslenskra framhaldsskólanema og Ungir umhverfissinnar.