Snjóflóðaverkfræðingur segir að kraftur flóðsins sem fór yfir varnargarðana á Flateyri sé mikið áhyggjuefni. Brýnt sé að leggja strax mat á það hvort bæta þurfi snjóflóðavarnir ofan við þorpið.
Ekki er tímabært að segja til um rúmmál snjóflóðanna á Flateyri. Mest er flóðið um fimm metra djúpt. Flóðið er líklega minna að rúmmáli en það sem féll 1995 en það fór hugsanlega jafn hratt.
„Það sem er í rauninni allra mikilvægasta í þessu að garðarnir héldu og þeir virkuðu fullkomlega gegn þessum þétta kjarna í flóðinu, sem er aðalatriðið, hann hefur mesta eyðileggingarmátt,“ segir Kristín Martha Hákonardóttir sérfræðingur í snjóflóðaverkfræði.
Svokallað skopplag sem er ofan á þétta kjarnanum fór yfir garðana. Kristín Martha segir að það sé mikið áhyggjuefni. „Og það er líka gríðarlegt áhyggjuefni hversu mikill kraftur er í því,“ segir Kristín Martha.
Fjögurra metra hátt stálmastur sem var uppi á garðinum brotnaði. Krafturinn sem þarf til þess jafngildir þyngd allt að 10 fólksbíla. „En krafturinn virðist hins vegar eyðast mjög hratt. Það missir það sem það er að knýja það áfram.“
Verkfræðingar og sérfræðingar Veðurstofunnar skoða nú hvort rétt sé að breyta görðunum til að þeir veiti betri vörn. Meðal annars er til skoðunar að hækka garðana og breyta þvergarðinum á milli þeirra. „Það sem að má líka skoða og verður skoðað hvort að keilur ofan við báða leiðigarðana geti brotið flóðið upp og þannig haft áhrif á þessa þrýstibylgju sem ferðast á undan flóðinu og þetta skopplag ofan á því,“ segir Kristín Martha jafnframt.