Rafpoppssveitin Sykur gaf á dögunum út sína þriðju breiðskífu, sem heitir því blátt áfram nafni JÁTAKK. Heil átta ár eru frá síðustu plötu og fáheyrt að hljómsveit sem hefur aldrei farið í pásu láti líða svo langan tíma líða milli platna.
En Sykur er ennþá í bullandi sveiflu og veitir ekki á sér neinn höggstað heldur slengir fram vöðvastæltu kraftpoppi eins og enginn sé morgundagurinn, níu lög, fituprósenta í lágmarki og allir vel smurðir og hressir. Það er að vissu leyti aðdáunarverður sjálfsagi að gefa ekki út lengri plötu eftir þetta langan tíma og líka nokkuð eftirtektarvert að bandið hafi haldið sér inni og í umræðunni þrátt fyrir að hafa einungis gefið út tvær smáskífur á þessum átta árum. En þau hafa vissulega getið sér gott orð á þessum tíma sem eitt besta tónleikaband landsins og haft vit á því að spila strategískt, ekki of oft svo fólk fái ekki leið á þeim, en hafa ekki of langt á milli svo þau gleymist ekki, spila þar sem skiptir máli og á réttu hátíðunum, í sölum sem henta þeim.
Frændurnir Kristján og Halldór Eldjárn stofnuðu Sykur ásamt Stefáni Finnbogasyni árið 2008 þegar þeir voru enn táningar. Þeir gáfu út fyrstu plötuna, Frábært eða frábært, árið 2009. Þá var enginn fastráðinn söngvari og platan mestmegnis ósungið og groddalegt elektró, bæði með 80‘s og smá rokki, og margt bar keim af böndum eins og Justice, Simian Mobile Disco og MSTRKRFT, böndum sem kennd voru við Ed Banger útgáfuna. Platan var heldur ekki ósnortin af hinum svokölluðu bloghouse- og nu-rave-senum, eins og litríkt umslagið bar með sér, og svo var eitt lagið nefnt eftir búðinni Nakta apanum sem hélt merkjum nu-rave-sins á lofti í fatatísku á Íslandi. Platan bar með sér mikla hæfileika í synþafimleikum og sterkt nef fyrir léttleikandi og gáskafullum laglínum, eitthvað sem hefði getað verið í gömlum nintendo-tölvuleikjum eða barnaefni jafnvel.
Gestasöngvarar settu þó sinn svip á plötuna, Rakel Mjöll Leifsdóttir, sem nú gerir það gott í rokkbandinu Dreamwife, söng tvö fín lög og Kata úr Mammút eitt. Það lag sem flestir muna þó eftir er suddalegi rappteknóslagarinn Viltu dick? þar sem Erpur Eyvindarson deleraði svona líka hressilega um leiðindi kalvinísks vinnusiðferðis, frænkur og fleira fallegt.
Tveimur árum síðar kom platan Mesópótamía út, og í stað gáskafullra tilrauna eru þar komnar þroskaðar popplagasmíðar og þróaðri hljóðheimur. En þarna var líka söngkonan Agnes Björt Andradóttir gengin til liðs við sveitina með sína rosalegu rödd sem öskraði, rappaði, hvæsti og raddslaufaði sig í gegnum frábær laugardagslög eins og Curling og Battlestar og ekki síst hreinlega slátraði hún helsta slagara sveitarinnar, Reykjavík, lagi sem fær ennþá alla út á gólfið og er eiginlega komið í kanónu Reykjavíkurlaga – ásamt, Ó Reykjavík, Ó borg mín borg og Í Reykjavíkurborg, og fleiri ódauðlegum.
Og Agnes var ekki síður mikilvæg á tónleikum Sykurs næstu árin og fyllti upp í skortinn á frontkonu með glæsibrag. Hún er náttúruafl á sviði sem gæti knúið heilu álverin, jafnvíg á söng og rapp með attitúd í flugfrögtum. Hún hannaði sjálf nýtt outfit fyrir hverja einustu tónleika, sem voru oft meira í ætt við skúlptor eða listaverk en föt, svo minnti á rosalega búninga hjá til að mynda Grace Jones og Lady Gaga.
Og nú er loks komin langþráð þriðja breiðskífan, JÁTAKK, og Lestin tekur undir það, segir einfaldlega: já takk. Hefði jafnvel verið til í meira. Hún byrjar á andvara, melankólískri ballöðu sem dembir sér þrábeint í skammdegsþunglyndið, „Kannski er það kuldinn í nóvember,“ er sungið, „og eftir skilaboðum ég beið, fávitinn ég / ef þú valdir þessa leið, fljótt gleymdu mér.“ Það er svo sett örugglega í annan gír í Lost Song með gutlandi hljóðgervlasulli og gítarslefi sem hæglega gæti átt uppruna sinn hjá mönnum með snyrtileg tögl í hvítum jakkafötum á smekklegum snekkjum.
En svo bíða þau ekki boðanna og bruna þráðbeint í hvatvísa skemmtistaðasleikinn og þrotaða eftirpartíið, „borin út í kleinu og kút og úr mér blæðir / birtir yfir brotinn draum ég ældí poka,“ og svo viðlagið „Æj ég er svo fokkt opp, viltu elska mig samt, þó ég taki ekki mark á neinum,“ og endar svo á svallkenndum rappkafla og hetjugítarsólói.
Tvö laganna höfðu komið út áður á smáskífu og eitt til hefur heyrst á tónleikum sveitarinnar undanfarin ár en það kemur ekki að sök, rokkaða orkan úr Motherload nýtur sín sérstaklega vel á eftir Kókídós, eina rólega laginu utan þess fyrsta. Loving None sem kom út fyrir um tveimur árum er eitt besta lag sveitarinnar, en stamandi stakkató synþanóturnar og hljómagangurinn minnir meira en lítið á Gusgus, einnig söngstíll Agnesar í versunum, og er þar ekki leiðum að líkjast. En gleðidúndrið sem verður á mínútu 1:53 er þó algjörlega Sykurs, þar sem allir synþar eru hækkaðir í ellefu svo úr verður eldgos af alsælu; Ekkert er í ólagi þegar þú heldur um mig,
Platan er hnitmiðuð og keyrsla allan tímann fyrir utan kannski tvö lög sem gefa okkur færi til að anda. Hún er frábært undirspil til að keyra hratt við, dansa miklu meira, pissa í kross, fokka sér upp, gefa vinum sínum fimmu, fara í sleik á dansgólfinu, hoppa hliðar saman hliðar, og bara alls konar hegðun sem samfélagið lítur niður á hjá fullorðnu fólki en eru samt yfirleitt skemmtilegustu minningarnar þegar þú lítur til baka.