Þengill Otri Óskarsson drukknaði í Breiðholtslaug 2003, var endurlífgaður og náði fullum bata. Hann segir að slysið hafi haft mikil áhrif á fjölskylduna en hann sjálfur sloppið vel úr erfiðri lífsreynslu. Þengill var fyrstur Íslendinga til að gangast undir kælimeðferð hér á landi eftir drukknun.

Þengill fannst meðvitundarlaus á botni Breiðholtslaugar en ekki er vitað hversu lengi hann var þar áður en sundlaugarvörður varð hans var. Maður sem var í lauginni kom honum upp á bakkann og hann, ásamt sundlaugarverðinum, hóf þegar lífgunartilraunir.

Í kælimeðferð til að draga úr líkum á heilaskaða
Þengill var fluttur á bráðadeild Landspítalans og komst ekki til meðvitundar fyrr en eftir tvo sólarhringa. Læknar beittu kælimeðferð á Þengil en slík meðferð er notuð til að draga úr líkum á heilaskaða. Meðferðinni hefur verið beitt á hundruð sjúklinga sem hafa farið í hjartastopp af völdum hjartasjúkdóms en aðeins nokkra sem hafa lent í drukknun.

Felix Valsson, sérfræðilæknir í svæfingu og gjörgæslu á Landspítala, sinnti Þengli Otra á sínum tíma. Hann sá líka um kælimeðferðina á Hilmi Gauta sem féll í Lækinn í Hafnarfirði í síðustu viku. Felix lýsti meðferðinni í fréttum RÚV á föstudag. Kælimeðferðin felst í því að líkamshiti sjúklinga er lækkaður niður í 32-24 gráður. Það minnkar líkurnar á því að sjúklingurinn verði fyrir heilaskaða. 

Missti meðvitund þegar hann var að kafa í lauginni
Þengill, sem var fjórtán ára, segist ekki vita hvað gerðist. „Það veit enginn, það eru einhverjar kenningar en ég fannst meðvitundarlaus. Ég stundaði það dálítið að kafa, líklegast hef ég verið að kafa og það hefur liðið yfir mig. Þegar maður er að kafa svona þá er maður að metta blóðið af súrefni með því að anda dálítið hratt áður en maður fer undir. Þá eykst hjartslátturinn hratt en svo þegar þú ferð undir að þá hægist hratt á honum og það getur valdið því að fólk missir meðvitund,“ segir Þengill. 

Þengill man ekkert eftir slysinu og segir að raunar hafi hann ekki lent í slysi heldur aðstandendur hans. „Ég man eftir því að hafa farið í sund og síðan að hafa vaknað tveimur dögum seinna. Ég opnaði augun einum degi seinna en þá vaknaði ég eiginlega upp úr svefnlyfjunum, þau voru hætt að virka. Ég opnaði augun og þá eru pabbi eða mamma þarna hjá mér og reyna að fá viðbrögð. Þau biðja mig um að kreista puttann og voru mjög spennt þegar þau voru að fá einhver viðbrögð frá mér.“

„Rosalegt að ganga í gegnum þetta“
Þengill segir að slysið hafi ekki haft mikil áhrif á sig. "Ég veit ekki hvernig ég hefði verið og prófað hina leiðina og séð hvernig ég hefði verið þá. Það er ekkert að hrjá mig þannig, ég get farið í íþróttir og út að hlaupa. Ég veit auðvitað ekki með framhaldið. Það var rosalegt að ganga í gegnum þetta, ég sá mynd af sjálfum mér. Ég veit ekki af hverju en ég var með mjög mikinn bjúg. Ég var um sextíu kíló, en þegar ég lá þarna á bekknum með bjúg var ég um áttatíu kíló. Ég veit ekki hvað það var langur tími, ég veit voða lítið. Ég lenti eiginlega ekki í neinu, það eru allir aðstandendur sem lentu í slysinu. Það hljómar kannski skringilega."

Þengill býr nú í Danmörku og vinnur hjá föður sínum við að setja upp loftræstikerfi. Hann segir að slysið hafi ekki haft mikil áhrif andlega. „Ég lenti í svo litlu sjálfur, ég geri það bara alveg eins og ég gerði fyrir slysið en fjölskyldan er sátt. Við erum öll mjög þakklát fyrir þetta, og grínumst með þetta núna.“ Þengill og fjölskylda hans hefur farið með smákökur til starfsmanna spítalans á hverju ári síðan hann lenti í slysinu. „Ég fer með sörur en mér hefur fundist þetta kjánalegt síðustu ár því ég þekki ekkert fólkið þarna. Pabbi byrjaði á þessu til að sýna að hann er þakklátur, fólkið þarna á gjörgæslunni eru hinar sönnu hetjur.“

Í fréttum Ríkissjónvarpsins, þann 27. nóvember 2003, sagði Felix Valsson, læknir það kraftaverk að Þengill Otri væri á lífi eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.