KR komst í kvöld í úrslit Geysisbikars kvenna í körfubolta eftir 104-99 sigur á ríkjandi meisturum Vals eftir framlengdan leik. Spennan var mikil frá upphafi til enda.
Valskonur eiga titil að verja en í leiknum voru að mætast tvö efstu lið úrvalsdeildarinnar. Fátt skildi liðin að framan af leik en staðan var jöfn, 21-21, að fyrsta leikhluta loknum. KR var með yfirhöndina lengst af í öðrum leikhluta með Danielle Rodriguez og Hildi Björg Kjartansdóttur fremstar í flokki en þær skoruðu 41 af 50 stigum KR í fyrri hálfleik. Sex stig aðskildu liðin þegar hálfleiksflautið gall, staðan 50-44 KR í vil.
KR hélt forystunni í þriðja leikhlutanum en Valskonum tókst að minnka muninn í eitt stig, 59-58, um miðjan þriðja leikhluta. KR konur svöruðu fyrir sig með átta stigum í röð en staðan fyrir þriðja leikhlutann var 70-62 KR í vil.
Sviptingar og spenna í lokin
KR byrjaði lokaleikhlutann vel og komst tólf stigum yfir, 81-69, eftir um þriggja mínútna leik. Í kjölfarið virtist bera á skjálfta í Vesturbæingum sem Valskonur nýttu sér til að minnka muninn í 81-78 eftir tæplega fjögurra mínútna stigalausan kafla KR. Hildur Björg Kjartansdóttir kom KR 85-81 yfir þegar hún skoraði sitt þrítugasta stig í leiknum en Hallveig Jónsdóttir svaraði með annarri þriggja stiga körfu sinni í röð strax í næstu sókn. Staðan var því 85-84 fyrir KR.
Valskonur klikkuðu í næstu sókn og Sanja Orazovic fór á vítalínuna fyrir KR þegar rúmar 20 sekúndur voru eftir. Annað vítaskotið fór niður og munurinn tvö stig, 86-84. Kiana Johnson jafnaði leikinn af vítalínunni í næstu sókn Vals 86-86. KR tókst ekki að nýta lokasókn sína og framlengja þurfti því leikinn til að fá á hreint hvort liðanna færi í úrslit bikarsins á laugardag.
Orazovic hetjan
Valur kom á betra skriði inn í framlenginguna en Hallveig Jónsdóttir kom Val 93-88 yfir með sjöundu þriggja stiga körfu sinni í leiknum snemma í framlengingunni. Hildur Björg Kjartansdóttir fiskaði hins vegar á hana villu í næstu sókn, hennar fimmtu í leiknum, og var Hallveig því úr leik. Sviptingarnar héldu áfram í framlengingunni en þriggja stiga karfa Danielle Rodriguez kom KR 96-95 yfir þegar um tvær mínútur voru eftir. Liðin skiptust á forystunni en þriggja stiga karfa Sanja Orazovic kom KR 101-99 yfir þegar mínúta lifði leiks. Önnur þriggja stiga karfa frá henni þegar níu sekúndur voru eftir dugðu KR í úrslit. KR vann leikinn 104-99 og fer því í úrslit Geysisbikarsins eftir hreint ótrúlegan leik.
Haukar eða Skallagrímur?
KR mætir annað hvort Haukum eða Skallagrími í undanúrslitum en liðin eigast við klukkan 20:15 í kvöld. Sá leikur verður sýndur beint á RÚV 2 og hér á vefnum.
Hildur Björg Kjartansdóttir skoraði 37 stig fyrir KR, Danielle Rodriguez 31 og Sanja Orazovic 24. Kiana Johnson skoraði 30 stig fyrir Val, Hallveig Jónsdóttir 29 og Helena Sverrisdóttir 24.