Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, vill boða til kosninga í október ef breska þingið útilokar úrgöngu Breta úr Evrópusambandinu án samnings. Þetta fullyrða breskir fjölmiðlar í kvöld og hafa eftir heimildarmönnum. Þar segir jafnframt að þingmönnum Íhaldsflokksins sem greiða atkvæði gegn stefnu stjórnarinnar hafi verið hótað að þeir fái ekki að bjóða fram fyrir flokkinn í þingkosningum.
Johnson hélt ræðu síðdegis þar sem hann skoraði á þingmenn Íhaldsflokksins að grafa ekki undan samningamönnum Bretlands sem freista þess nú að ná nýjum samningi við Evrópusambandið um úrgöngu Bretlands. Johnson sagðist þá ekki vilja kosningar, og að það vildu landsmenn heldur ekki.
Kosningar 14. október?
Stuttu eftir að Johnson lauk ræðu sinni fóru heimildarmenn innan ríkisstjórnarinnar að ræða við blaða- og fréttamenn. Þeir lögðu út af tilraun stjórnarandstöðunnar og óánægðra þingmanna Íhaldsflokksins til að koma í veg fyrir úrgöngu Breta án samnings. Þeir vilja að þingið kveði á um að Johnson verði að óska frests á úrgöngu Breta ef samningar hafa ekki náðst 19. október. Þetta sættir Johnson sig ekki við og segir að veiki samningsstöðu Breta.
Heimildarmenn breskra fjölmiðla segja að forsætisráðherrann sé reiðubúinn að boða til kosninga 14. október ef þingið setur honum skorður. Honum gæfist þá tími til að undirrita samning við Evrópusambandið áður en 31. október rennur upp en andstæðingum útgöngu án samnings yrðu þrengri skorður settar að bregðast við eftir kosningar.
Þingmönnum hótað
Breskir fjölmiðlar segja jafnframt að forysta Íhaldsflokksins þjarmi að þeim þingmönnum sem líklegir eru til að greiða atkvæði gegn stjórnarstefnu og með því að fresta úrgöngu ef samningar nást ekki. Þeim sé nú tjáð að andstaða geti kostað þá sæti í framboði fyrir Íhaldsflokkinn í kosningum, ef til þeirra kemur í haust.
Þetta hefur vakið óánægju þingmanna og stuðningsmanna þeirra sem benda á að ólíkt Johnson hafi í það minnsta sumir þeirra greitt atkvæði með samningi sem Theresa May, forveri Johnsons, gerði við ESB. Þá greiddi Johnson atkvæði gegn stjórnarstefnu.