Bandarískur sjávarlíffræðingur hefur merkt átta hvali við Ísland með títankubbi sem skotið er úr loftbyssu. Kubburinn safnar gögnum um hvalina sem veita innsýn í ferðir þeirra og hegðun.
Bandaríski sjávarlíffræðingurinn Jacob Levinson hefur rannsakað hvali í Faxaflóa í rúm tíu ár, í samstarfi við hvalaskoðunarfyrirtækið Eldingu, og við aðra líffræðinga. Markmiðið með merkingunum er að öðlast betri skilning á hegðun hvalanna í flóanum.
„Gervihnattamerkingar og ljósmyndakennslagögn úr hvalaskoðunarferðunum hjálpa okkur að sjá hvernig best er að hugsa um sjóinn til þess að varðveita hvali sem best. Það þjónar hagsmunum okkar og rekstrarins að sjá til þess að dýrin sem við reiðum okkur á njóti verndar. Nú þegar loftslagsbreytingar og margt annað ógnar tilveru hvala hafa gögnin sem við söfnum mikla þýðingu fyrir skiling okkar á rýmisskipulagi hafsins.“
Hefur merkt átta hrefnur og hnúfubaka
Í þessari ferð hefur Levenson merkt átta hrefnur og hnúfubaka með sérstökum títankubbum. Kubbarnir eru sótthreinsaðir til að koma í veg fyrir að hvalirnir sýkist og síðan er þeim skotið úr loftbyssu í ysta lag húðarinnar.
„Að merkja hvali er áhugavert og krefst mikillar þolinmæði. Eftir að gervihnattamerkinu er komið fyrir er lítill skynjari sem greinir hvenær hann er þurr. Þegar hvalurinn kemur upp á yfirborðið segir skynjarinn: Ég er þurr! Þá kviknar á merkinu og það sendir gögn upp til gervitunglsins sem er á braut um jörðu. Þetta gerist allt á innan við sekúndu,“ segir Jacob.
Sömu hrefnurnar koma til Íslands ár eftir ár
Merkin séu einstök því þau hafi engin áhrif á hvalina. Þeir sýni breytta hegðun í augnablik en svo sé þeim alveg sama. Tilgangurinn með rannsóknini er að kortleggja svæði hvalanna, varpa ljósi á ferðir þeirra um Faxaflóa og skoða hvaða áhrif bátar hafa á dýrin. Rannsóknin hefur meðal annars leitt í ljós að sömu hrefnurnar leggja leið sína hingað til lands ár eftir ár af gildri ástæðu.
„Þessi gögn geta sýnt fram á hvers vegna Ísland er sérstakur staður. Við vitum að ákveðin dýr, einstakir hvalir, fara langa leið á hverju ári og koma aftur nákvæmlega hingað. Það er ástæða fyrir því að þeir koma aftur - Ísland er sérstakt. “