Konur sem fá meðgöngueitrun lifa allt að tíu árum skemur en aðrar konur að jafnaði. Sveinbjörn Gizurarson, prófessor í lyfjafræði við Háskóla Íslands, var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 en hann segir að verið sé að þróa lyf við meðgöngueitrun sem vonandi verði tilbúið á næstu tíu til fimmtán árum. Meðgöngueitrun sé vanmetinn og alvarlegur sjúkdómur.

Meðgöngueitrun hrjáir tvö til fimm prósent þungaðra kvenna á hverju ári og orsakast af ýmsum ástæðum. Eitrunin kemur fram sem hár blóðþrýstingur og prótein í þvagi en hugsanlega orsakast hún af því að það vantar blóðflæði til fylgjunnar og fóstursins. „Fylgjan stýrir óhemju miklu í öllum líkama konunnar, hún sér til þess að auka blóðflæði til fylgjunnar og þar af leiðandi fósturs og þetta virðist vera kall eftir meira blóði,“ segir Sveinbjörn. „Ef rörin eða æðakerfið er ekki nógu vítt og það er þörf á meira blóði er eina leiðin að auka blóðþrýstinginn og fá þannig meira blóðflæði til fósturs sem að er þurfandi á blóð.“

Að sögn Sveinbjörns er það gífurlegt álag fyrir líkama kvenna þegar þær fá meðgöngueitrun. „Þegar meðgöngueitrun á sér stað verður gríðarlegt álag á æðaþelið, sem er innra byrði æða, og það er hægt að mæla skemmdir sem hafa átt sér stað þar í mjög fullorðnum konum fjöldamörgum árum eftir að þær fengu meðgöngueitrun,“ segir Sveinbjörn. Skemmdirnar auki verulega á hjarta og æðasjúkdóma, sykursýki  og aðra sjúkdóma og tölfræðin segir að konur sem fá meðgöngueitrun lifi skemur en aðrar. 

Nú sé verið að þróa lyf gegn meðgöngueitrun en fyrir nokkrum árum komst Sveinbjörn á snoðir um rannsókn þar sem verið var að kanna prótein sem hægt er að mæla strax á fimmtu viku meðgöngu. Hann fékk sýnishorn af próteininu og eftir rannsóknir komst hann að því að próteinið undirbýr æðakerfið í kringum legið fyrir það mikla blóðflæði sem á sér stað í lok meðgöngunnar.

Síðastliðið haust veitti Tækniþróunarsjóður fjármagn til lyfjaþróunar. Sveinbjörn segir að sem stendur þurfa konur sem fá meðgöngueitrun að lifa með skemmdunum en vonandi heyrir það sögunni til með tilkomu lyfs. „Ef þetta prótein sem við erum að vinna með, ef tilgátan er rétt, ætti að vera hægt að meðhöndla konuna strax á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar og koma þannig í veg fyrir að þetta ástand komi upp,“ segir Sveinbjörn. Ef allt gengur upp ætti lyfið að vera tilbúið eftir tíu til fimmtán ár.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild í spilaranum hér að ofan.