Í frægu viðtali við Hermann Gunnarsson á RÚV í desember 1990 sagði Rósa Ingólfsdóttir heitin að þrátt fyrir hispurslausar skoðanir sínar á jafnréttismálum, glettni og ákveðna framgöngu þá væri hún feimin að eðlisfari. Mest nyti samvista með dætrum sínum, að hlusta á rómantíska tónlist og láta eins og asni.
Hin fjölhæfa Rósa Ingólfsdóttir, sem var fyrsti auglýsingateiknari Ríkisútvarpsins og síðar sjónvarpsþula samhliða störfum sínum sem fréttateiknari, lést þann 14. janúar síðastliðinn. Hún vakti alla tíð mikla athygli fyrir kímni sína og skoðanir sínar sem hún lá ekki á, meðal annars hvað varðar jafnrétti kynjanna sem hún lýsti gjarnan yfir að hún væri á móti enda væri hlutverk konunnar fyrst og fremst að aðstoða manninn sinn. Jónína Leósdóttir skrifaði ævisögu Rósu árið 1992 sem nefnist Rósumál þar sem henni er lýst sem þjóðsögu í lifanda lífi með kjark til að segja skoðanir sínar á mönnum og málefnum. Margir muna eftir frægu forsíðuviðtali við Rósu í tímaritinu Mannlífi frá árinu 1989 og forsíðumyndinni af Rósu í rósabaði sem þótti á þeim tíma ögrandi. Hún var óhrædd við að synda á móti straumnum og í þætti Hermanns Gunnarssonar, Á tali hjá Hemma Gunn í desember 1990, lýsti þáttastjórnandi henni sem valkyrju sem væri löngu orðin fræg fyrir glaðværð, frísklega framkomu og ákveðnar skoðanir.
Rósa var nýkomin heim úr ferðalagi um landið þar sem hún var fengin til að vera sérstakur heiðursgestur á mannamótum, stjórnaði tískusýningu og varði einnig miklum tíma á teiknistofunni sem hún kallaði annað heimili sitt þegar hún settist í sófann hjá Hemma. Það var enda jafnan mikið um að vera hjá henni og gustaði mikið um Rósu í lifanda lífi. Hún naut sín vel í fjölbreyttum verkefnum og vakti mikið umtal. Sjálf kvaðst hún þó feimin að eðlisfari og sagðist njóta sín hve best heima hjá sér að vaska upp og ryksuga, njóta samvista með dætrum sínum, að stoppa í sokka og strauja.
Mikilvægt að vera trúr sjálfum sér
Spurð um skoðanir sínar á jafnréttismálum sagði hún sposk á svip að þær myndu aldrei breytast. „Konan á fyrst og fremst að vera kona og ekkert annað,“ sagði hún og uppskar mikið lófaklapp úr salnum. „Konunni er gefið svo mikið. Því ekki að dúlla við það og leyfa karlmanninum að dúlla við hana? Ég vil að mennirnir stjórni og að konan sé til aðstoðar og við hliðina á honum.“
Hún sagði þó að það yrði bara að hafa það að jafnréttismálum þokaði áfram á Íslandi og hló innilega. „Ég vil bara að konan viðurkenni það, með öllum þeim kvenlegu eiginleikum sem því fylgja, að hún sé kona og sé ekki að leika karlmann,“ sagði hún og ítrekaði að hún meinti hvert orð sem hún segði. „Það getur vel verið að ég hafi hugrekki enda af hverju ekki. Af hverju ætti maður ekki að vera trúr sjálfum sér og þjóna sannleikanum?“
Hvar væri lífið án öfundsjúkra og illkvittinna?
Það var ljóst, ekki síst vegna þess hve opinská hún var um umdeildar skoðanir sínar, að samlandar Rósu höfðu líka skoðanir á henni og var hún mikið á milli tannanna á fólki. Hún sagðist þó alls ekki láta illt umtal á sig fá enda væri fólk sem stundaði slíkt nauðsynlegur hluti af tilverunni. „Hugsaðu þér hvað við erum heppin að hafa fólk sem er hlaðið öfund og illgirni og forvitið fólk sem þarf að vita allt um alla. Hvað væri lífið án þessa fólks?“ spurði hún og brosti. „Þetta plagar mig ekkert, fólk má bara vera eins og það er og það verður hver að fljúga eins og hann er fiðraður.“
Í tilefni heimsóknar Rósu í þáttinn leitaði Hemmi Gunn til nokkurra vina hennar og vandamanna sem sögðu að Rósa væri tilfinninganæm, glaðbeitt, ákveðin og ögrandi. Ómar Ragnarsson vinur Rósu sagði um vinkonu sína:
Hún er ákaflega glaðbeitt en sá eiginleiki Rósu sem ég met eiginlega mest er þessi einlægni og að hún þorir að vera hún sjálf, það er þetta óskaplega hugrekki sem hún býr yfir. Ég dáist að því. Hún er ein af fáum manneskjum á Íslandi sem þorir að synda á móti straumnum og vera hún sjálf.
Ekkert erindi fyrir konur inn á þing
Þrátt fyrir harðan skráp, ákveðna framgöngu og sterkar skoðanir fullyrti hún að hún sjálf ætti ekkert erindi í pólitík og bætti því við að það ættu engar kynsystur hennar heldur. „Ég vil ekki konur inni á þingi. Konur hafa ekki þessa málefnalegu einbeitingu sem karlmaðurinn hefur,“ sagði hún ákveðin. „Þegar komið er inn á þing þýðir ekkert væl heldur bara harkan en konan fer bara í flækju. Hvað heldurðu til dæmis að það þýði fyrir konu til dæmis að mæta í beina útsendingu á móti Steingrími Hermannssyni? Þær myndu móðgast.“
Rósa bætti því við að konan hefði heldur ekki þann húmor sem karlmaðurinn býr yfir og að hún væri spéhrædd. „Konan er yfirleitt með grófari húmor en karlmaðurinn. Ég tala ekki um þegar hún er komin í glas, þá verður þetta virkilega klúrt.“
Ekki tilbúin að gifta sig sjálf
Það varð ljóst að karlmennirnir í salnum tóku vel í ummæli Rósu enda hrópuðu þeir margfalt húrra og klöppuðu fyrir nánast hverju orði. Hemmi spurði hana hvernig kona sem dáðist svo að styrkleika, kímni og gáfum karlmanna væri enn ógift. Hún svaraði um hæl að hún væri ekki tilbúin til að gifta sig enda hefði hún í nægu að snúast með sjálfa sig. „Ég vil vinna úr mínum hæfileikum og get ekki hugsað mér að bjóða nokkrum einasta karlmanni upp á allan þann bægslagang sem þessu brölti mínu fylgir. Ég vil bara geta dúllað við hann í rólegheitunum,“ sagði Rósa loks og kímdi.
Innslagið úr þætti Hermanns Gunnarssonar má sjá í spilaranum efst í fréttinni.