Fyrir sextíu og einu ári eða árið 1958 sendi verkakonan Arnfríður Jónatansdóttir frá sér sína fyrstu og einu ljóðabók, Þröskuldur hússins er þjöl hét hún. Bókin vakti ekki sérstaka athygli enda nóg af strákum að skaka sér inn á skáldabekk með nýjum aðferðum og nýjum umfjöllunarefnum í ljóðlistinni á þessum tíma. Nú hefur bók Arnfríðar verið endurútgefin og þar með myndin af upphafi módernískrar ljóðlistar á Íslandi orðið fyllri.

Bókin Þröskuldur hússins er þjöl fékk þó nokkuð góða dóma þegar hún kom út árið 1958 um leið og hún var líka töluð niður og féll að lokum alveg í gleymsku. Það var ekki fyrr en seint á síðustu öld þegar konur í hópi bókmenntafræðinga, kennara og nemenda við Háskóla Íslands, tóku að skoða þetta mikilvæga tímabili grósku og nýjunga í íslenskri ljóðlist frá sínu sjónarhorni að hún kom aftur fram á sjónarsviðið. Fræðikonurnar, þær ungu, komu auðvitað fljótt auga á að meðal strákanna sem þá voru margir orðnir fullþroska og afar viðurkennd skáld hafði líka verið kynsystir þeirra sjálfra, Arnfríður Jónatansdóttir, og hún hafði skrifað framúrskrandi ljóð, ljóð sem fjölluðu um ljóðlistina og orðin, um jaðarsetningu og óréttlæti, um frið og andstöðu við stríð og hermennsku.

Í útsendri gerð þáttarins Orð um bækur frá 3. ágúst 2019 er því haldið fram að Arnfríðar sé lengst af að engu getið í yfirlitum um þróun módernískrar ljóðagerðar á Íslandi. Það er ekki alls kostar rétt því í Íslenskri alfræðiorðabók Arnar og Örlygs er Arnfríðar getið, „f.1923: ísl.ljóðskáld. Ljóðabók hennar, Þröskuldur hússins er þjöl (1958), vakti athygli fyrir nýstárleg efnistök og sérkennilegan og oft súrrealískan stíl.“ Í því samhengi er þó rétt að geta þess að þegar árið 1989 hafði Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur birt grein sína „Brúarsmiður – Atómskáld – Módernisti“ í Ljóðaárbók. Ritstj. Berglind Gunnarsdóttir, Jóhann Hjálmarsson og Kjartan Árnason, sem Almenna bókafélagið gaf út.

Fyrr í sumar endurútgaf svo nýtt forlag, Una útgáfuhús, þessa einu ljóðabók Arnfríðar Jónatansdóttur með formála eftir Soffíu Auði Birgisdóttur bókmenntafræðing. Í bókinni má einnig lesa tvö ljóð sem Arnfríður birti síðar sem og viðtal sem Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir tók við Arnfríði árið 2002 fyrir tímaritið Veru.

Arnfríður fæddist árið 1923 á Akureyri og var því þrjátíu og fimm ára gömul þegar þessi fyrsta og eina bók hennar kom út. Hún fluttist barn að aldri til Reykjavíkur með móður sinni og bjuggu þær mæðgur lengst af saman, lengi í hinu fræga braggahverfi Camp Knox, eins og Vilborg Dagbjartsdóttir sagði frá á ljóðakvöldi til heiðurs Arnfríði og í tilefni endurútgáfu bókarinnar 26. júní síðastliðinn. Þar ræddi Einar Kári Jóhannsson, einn aðstandenda Unu útgáfuhúss, við Vilborgu Dagbjartsdóttur, sem þekkti Arnfríði auk þess sem fimm skáldkonur, þær Linda Vilhjálmsdóttir, Bergþóra Snæbjörnsdóttir, Fríða Ísberg, Bára Hjálmsdóttir og Gerður Kristný, fluttu eitt ljóð eftir Arnfríði að eigin vali auk nokkurra ljóða eftir sjálfa sig. Þessi viðburður var tekinn upp og hér má hlusta á brot af þessari dagskrá.

Arnfríður Jónatansdóttir er huldukonan í módernískri ljóðlist á Íslandi. Hún gaf aðeins úr eina bók þótt hún hafi vissulega áður og einnig síðar birt stöku ljóð í blöðum og tímaritum. Og eins og fleiri atómskáld kom hún í hljóðver útvarpsins og las upp. Þessi upptaka er varðveitt og má hlusta á hana hér. Arnfríður les hér tvö ljóð annars vegar langt og nokkuð persónulegt prósaljóð „Dagbókarblöð“ og virðist þetta ljóð ekki hafa annars staðar verið gert opinbert. Hitt ljóðið heitir „Rímustef“ og er einnig að finna í ljóðabókinni Þröskuldur hússins er þjöl. Upptakan gerð í mars árið 1958 eða sama ár og ljóðabókin kom út.

Arnfríður birti síðast ljóð eftir sig opinberlega í tímaritinu 19. júní árið 1965.