Það kom á óvart að íslensk stjórnvöld sendi börn sem óska hér eftir hæli, til Grikklands. Þetta segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna. Til stendur að senda tvær afganskar fjölskyldur, þar af fjögur börn, til Grikklands þar sem þau hafa fengið alþjóðlega vernd. Evrópuráðið og flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafa bent á óviðunandi aðstæður flóttamanna í Grikklandi. Salvör hefur óskað eftir fundi með dómsmálaráðherra og verður hann í þessari viku.

Rætt var við Salvöru Nordal á Morgunvaktinni á Rás 1. 

„Það kom okkur á óvart að það væri verið að senda til Grikklands. Í þessu tilfelli eru börnin búin að fá dvalarleyfi. Við erum ekki að senda börn til Grikklands sem eru hælisleitendur þar. Þá vaknar spurningin er forsvaranlegt að senda börn til Grikklands þótt þau hafi fengið dvalarleyfi. Mér finnst eðlilegt að það sé gerð sérstök skoðun á því. Mig langar að heyra ástæðuna og rökin,“ segir Salvör.

Þá sé fleira sem þurfi að skoða. 

„Það er þegar börn hafa verið hér í einhvern tíma. Þau eru hérna mánuðum saman, þau ná að festa rætur og líður vel í skóla, þá er mjög sársaukafullt að senda þau til baka. Þannig að við erum líka að hugsa um málshraðann og slíka hluti sem er vert að taka upp,“ segir Salvör.

Barnasáttmálinn kveði á um að börn skuli metin sjálfstætt. Það eigi einnig að gilda um börn á flótta í fylgd með foreldrum sínum.

„En ekki bara foreldrarnir og síðan börnin eins og viðhengi við þau. Að hagsmunir barnanna séu metnir,“ segir Salvör.