Fulltrúar stjórnvalda, Samtaka atvinnulífsins og ASÍ kynna á morgun samkomulag um hvernig staðið verði að launagreiðslum fólks sem þarf að vera í sóttkví vegna COVID-19 veirunnar.

Launagreiðslur til þeirra starfsmanna sem starfa á almennum vinnumarkaði og þurfa að fara í sóttkví hafa verið á reiki. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í morgun að atvinnurekendur ættu ekki að greiða fólki laun í sóttkví, heldur væri það ríkisins að greiða þeim bætur.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fundaði með fulltrúum SA og ASÍ nú síðdegis og vinna þessir aðilar að sameiginlegri yfirlýsingu um fyrirkomulag launagreiðslna í sóttkví. Sú yfirlýsing verður kynnt á morgun.

Ekki hluti af lausninni að ríkið borgi

Katrín segir alla sammála um að markmiðið sé að hefta útbreiðslu veirunnar og tryggja að álag á innviði og heilbrigðiskerfi verði ekki of mikið. Í því skyni sé sóttkví nauðsynleg aðgerð. „Um þetta eru allir aðilar sammála þannig að það sem mun gerast næst í þessu máli er að við erum að vinna saman að sameiginlegri yfirlýsingu til þess að koma með ásættanlega lausn til næstu vikna, því eðli málsins samkvæmt, vitum við ekki hver þróunin verður. Þannig að við getum tryggt það að tillmælum það að fólk fari í sóttkví ef ástæða er talin til, að þeim verði fylgt.“

-Og fólk missi ekki laun við það?

„Eðli málsins samkvæmt þá eru það kolröng skilaboð að skerða laun fólks þegar það fer í sóttkví, vð getum ekki látið það bitna á efnahag fólks að það sé að fylgja tilmælum í þágu almannahagsmuna.“

Spurð hvort ríkið komi til með að borga launin svarar Katrín að það sé ekki hluti af þeirri lausn sem kynnt verður á morgun.