Tónlistarmaðurinn Krummi Björgvinsson gaf í dag út fyrsta lagið af væntanlegri breiðskífu sinni og kokkar þar upp spennandi samsuðu af kántrí- og blúsaðri rokktónlist. Þessa dagana fara helgarnar í að taka upp sveitatónlist en á virkum dögum ræður veganmatur för.
Krummi hefur komið víða við í tónlistinni á síðustu árum en frá því að hann steig fyrst fram á sjónarsviðið með hljómsveitinni Mínus hefur hann starfrækt rokkbandið LEGEND, unnið með Daníel Ágústi úr Gus Gus í hljómsveitinni Esju og með kærustu sinni Linneu Hellström og Frosta Gringo í bandinu Döpur. Krummi snýr sér nú alfarið að sólóefni sem hann mun gefa út hjá Öldu Music og fyrsta lagið sem heyrist kallast Stories To Tell.
„Já, nú er ég að einbeita mér að sólóferli og er að setja saman band svo að ég geti byrjað að spila á tónleikum og svoleiðis. Þetta er allt saman að fara í gang,“ segir Krummi sem hefur unnið með hinum og þessum í fjölmörgum verkefnum síðustu ár og reynir að hafa alltaf nóg að gera. Fyrst sást til Krumma í hinni goðsagnakenndu hardcore-sveit Mínus en nú er annar hljómur í vélinni. „Þetta er kannski hardcore á þann máta að þetta er einlægt og gert af einskærri innlifun. Þetta er bara svona útlagasveitatónlist, kántrímúsík í bland við folk, rokk og ról og blús. Kannski eitthvað sem við myndum kalla americana-músík,“ segir Krummi og játar að í hjarta hans slái kántríið ört. „Ég er algjör svona vintage-kall.“
Stories To Tell er fyrsta lagið á plötunni og meira er á leiðinni. „Ég er að vinna að stórri plötu, mun gefa út þrjá singla áður en hún kemur út og hún er í bígerð. Ég vinn í henni um helgar og stefni að því að hún komi út í haust en ég get auðvitað ekki lofað neinu og gæti verið að hún dragist yfir á næsta ár,“ segir Krummi en hann getur að minnsta kosti lofað strax þremur fyrstu lögum plötunnar því þau hafi öll þegar verið tekin upp og séu tilbúin.
Krummi segist gefa sér tíma í að vinna í sveitatónlistinni um helgar en á virkum dögum taka sveittir veganborgarar við. „Svo er ég bara á Veganæs á virkum dögum. Alveg brjálað að gera og gengur rosavel. Við Linnea kona mín, hún er kokkur og þetta er hennar matur, höfðum látið okkur lengi dreyma um að vera með okkar eigin stað með svona þægindamat,“ segir Krummi sem vill ekki kalla þetta þynnkumat en grænkerakrásirnar sem þau bera fram eru verulega djúsí. „Þetta er svona transitional matur, til að endurforrita heilann og sýna þér að við erum ekki bara heima að borða kál,“ segir Krummi.
Krummi nýtur aðstoðar góðvina sinna við gerð plötunnar. „Bjarni M. Sigurðarson gítarleikari Mínus er mín hægri hönd í þessu. Hann er svo hæfur gítarleikari. Ég kem með tilbúið lag og Bjarni velur inn gítarparta og við útsetjum þetta svolítið saman,“ segir Krummi sem er í þann mund að setja saman hljómsveit í kringum sína tónlist. „Alda music stendur á bak við útgáfuna og svo fékk ég minn besta vin, Frosta Jón Runólfsson til að gera myndband við lagið. Hann gerði það af einskærri snilld. Ég elska að vinna með vinum mínum og auðvitað gaman að kynnast nýju fólki, til dæmis eins og fólkinu hjá Öldu. Það er gott að hafa smá teymi í kringum sig.“
Myndband Frosta við lagið Stories To Tell má sjá hér að ofan og Krummi er ánægður hvernig það kom út. „Lagið fjallar í grunninn um að vera trúr sjálfum sér, leyfa þessu góða að gerast í kringum sig. Vera bjartsýnni og setja góða orku fram. Svo getur lífið verið svolítið erfitt, það er svo margt þungt að gerast í kringum okkur í dag, margt neikvætt í gangi. Þannig að lagið fjallar um að finna innri ró, í lífsins ólgusjó,“ segir Krummi að lokum.
Viðtal Lovísu Rutar við Krumma í Popplandi má heyra með því að smella á myndina efst í fréttinni.