Rapptvíeykið og stórvinirnirJói Pé og Króli trylltu lýðinn í Stúdíó 12 á föstudegi þegar þeir tóku þrjú lög ásamt hljómsveit sinni. Þeir léku bæði eldra efni og af glóðvolgt lag af óútkominni plötu þeirra. Þeir eru sammála um margt en þó ekki dálæti Króla á tónlistarmanninum Mika.
Þó Jói Pé og Króli geri sér grein fyrir því að fjölmargir aðdáendur iði í skinninu eftir að fá að hlýða á nýtt efni frá þeim segjast þeir sjálfir taka lífinu með ró í seinni tíð. „Áður fyrr stressuðum við okkur mikið á því að gefa út efnið strax en við höfum komist að því að það er ekki hollt að hugsa þannig,“ segir Króli. „Sem listamaður verður maður að leyfa hlutunum að koma bara þegar þeir koma. Ef það er vinsælt í dag verður það ábyggilega gott eftir tvö ár líka.“
Króli setur samt ákveðinn fyrirvara til ungra listamanna sem kunna að vera að hlýða á hann og segir þeim að taka ekki of mikið mark á orðum hans. „Ef þið eruð upprennandi tónlistarmenn, fylgið frekar ykkar eigin möntrum.“
Á morgun koma piltarnir fram á tónleikum í Hörpu sem eru hluti af tónleikaröð sem nefnist Reikistjörnur. Þeir taka það þó fram að þó þetta séu fjölskyldutónleikar muni þeir bara vera þeir sjálfir. „Þetta verður bara stuð og stemning og við ekki í neinum trúðabúningum.“
Aðspurðir um þá listamenn sem hafa veitt þeim innblástur í gegnum tíðina koma flest svörin lítið á óvart. Sem pjakkar hlustuðu þeir mikið á gamaldags rapp í bland við Blaz Roca og Eminem sem þá voru sjóðheitir. Eitt svarið kemur þó á óvart. „Þegar ég var tíu eða tólf ára hlustaði ég mikið á Mika.“ Jóhann svarar gáttaður að hann viti ekki einu sinni hver það er. „Veistu ekki hver Mika er? Við erum að fara að hlusta á hann á eftir sko.“
Þeir tóku þrjú lög, Tveir koddar, Þráhyggja og lag af nýrri plötu þeirra sem nefnist Geimvera.