Einar Rúnar Sigurðsson fagnaði nýja árinu á heldur óhefðbundinn hátt í gær þegar hann náði þeim áfanga að klífa Hvannadalshnúk í 300. sinn og hefur því klifið hnúkinn oftar en nokkur annar. Hann segist hvergi vera nær guði en á toppi Hvannadalshnúks.
Upp á toppnum í gær gæddi Einar sér á humarsúpu og kóki í gleri. Frostið var um 15 gráður en vindurinn hægur. „Þetta var ofboðslega falleg byrjun á árinu og birtan ein sú fallegasta sem ég hef séð á öllum þessum árum þarna uppi,“ segir hann.
Einar fór í fyrsta sinn upp á topp Hvannadalshnúks árið 1989, þá 21 árs gamall. „Þá hélt ég að ég væri að fara þangað upp í fyrsta og eina skiptið,“ segir Einar sem ólst upp á bænum Hofsnesi í Öræfum og býr þar enn þann dag í dag. Þá fór hann með ættingjum og nágrönnum úr Öræfunum. Flest göngufólkið var þá klætt í gúmmískó og með broddstaf í hendi. Fljótlega eftir fyrstu gönguna fór Einar að vinna við landvörslu og kynntist þá mikið af fjallgöngufólki og fékk brennandi áhuga á fjallgöngum og skíðaiðkun.
Hefur starfað lengst allra við fjallaleiðsögn
Faðir Einars, Sigurður Bjarnason, hætti hefðbundnum búskap í Hofsnesi árið 1989 og fór að bjóða upp á ferðir út í Ingólfshöfða á heyvagni. „Pabbi benti mér á að þar sem ég var að fara með vini mína á Hvannadalshnúk á hverju ári og jafnvel líka með vini vina minna þá gæti ég farið að bjóða upp á ferðir þangað.“ Hann stofnaði fyrirtækið sitt, Öræfaferðir, árið 1994 og kveðst vera sá fjallaleiðsögumaður sem lengst hefur starfað við fagið hér á landi.
Yfirleitt fer Einar á Hvannadalshnúk með hópi göngu- og skíðafólks. Í seinni tíð hefur hann aðeins farið með skíðafólk þangað upp. Hann fór einn í 300. ferðina sína í gær. Oft eru aðstæður þannig að hann kemst ekki alla leið á toppinn og hann telur þær ferðir ekki með. Í gær fór hann lengri leið til baka en vanalega og var með skíðin meðferðis. Leiðin var allt í allt um 30 kílómetrar og segir hann að hæfa ágætlega þar sem þetta var þrjúhundruðasta ferðin.
Bað fyrir nýju ári á Hvannadalshnúki
En hvað er það sem er svo heillandi við það að ganga á Hvannadalshnúk? „Ég er bara svona innréttaður. Konan mín spyr mig stundum hvort ég þurfi ekki að fara að hnúkinn. Þetta er bara eitthvað sem ég verð að gera. Ég er hvergi nær guði en þarna. Í gær bað ég fyrir nýju ári og að þetta eldfjall sofi áfram. Þetta er bara æðislegt.“
Einar fagnar fimmtugsafmæli sínu næsta sumar og segir að núna þegar árin færist yfir finni hann vel að göngurnar geri honum gott. „Það yrði ekki gott fyrir skrokkinn ef ég myndi hætta og setjast við skrifborðið.“ Hann reynir að setja alls kyns met á göngum sínum, þar á meðal hraðamet.
Sigketillinn hefur dýpkað
Einar fer oftast þá leið upp á Hvannadalshnúk sem kölluð er Sandfellsleið en líka aðrar leiðir. Hann segir jökulinn hafa breyst töluvert í gegnum árin. Nú þarf að ganga um 300 til 400 metra lengra en áður til að komast að jöklinum þar sem hann hefur hopað síðustu ár. „Hnúkurinn sjálfur er alltaf svipaður en sprungur og nýi sigketilinn eru breyting. Nú eru botnlausar sprungur í gígnum sem byrjaði að myndast í haust eftir jarðhræringar.“ Sigketillinn var um 18 metrar að dýpt í október. Einar myndaði sigketilinn í göngunni í gær og segir að hann hafi dýpkað um helming á nokkrum vikum.
Yfirleitt er rólegt að gera í fjallaleiðsögumennskunni á Hvannadalshnúk á þessum árstíma. Nokkrar fyrirspurnir hafa borist í vetur og hefur Einar ekki farið í neinar ferðir með aðra síðustu tvo mánuði vegna jarðhræringanna í Öræfajökli.