Klarínettkonsert, 2. kafli eftir Wolfgang Amadeus Mozart. Einleikari Arngunnur Árnadóttir. Sinfóníuhljómsveit Íslands. Daníel Bjarnason.
Árni Heimir Ingólfsson skrifar:
Wolfgang Amadeus Mozart (1756–1791) samdi tugi einleikskonserta fyrir hin ýmsu hljóðfæri: fiðlu, píanó, horn, flautu, óbó, fagott. Klarínettkonsert hans varð til fáeinum mánuðum áður en hann lést og var síðasta verk hans af þessum toga. Mozart samdi verkið innblásinn af fögrum leik Antons Stadlers, sem var einn færasti klarínettleikari Vínarborgar á sinni tíð. Þetta voru annasamir mánuðir í lífi tónskáldsins; Töfraflautan var fullgerð í lok september og fáeinum vikum síðar var konsertinn til reiðu. Hann var síðasta verkið í stóru formi sem Mozart náði að ljúka við áður en hann lést. Hann veiktist 20. nóvember og tveimur vikum síðar var hann allur. Hægur miðkaflinn er eins konar aría án orða, ljúf og tregafull í senn.