Esther Hallsdóttir var í dag kjörinn ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Þetta er í fyrsta skipti sem Ísland á slíkan fulltrúa hjá samtökunum.

Fulltrúaráð Landssambands ungmennafélaga, LUF, kaus Esther í kvöld og hafði hún betur í síðari umferð með einu atkvæði. 28 aðildarfélög sambandsins gátu boðið fram sinn fulltrúa sem síðan var kosið á milli. Esther var frambjóðandi Ungra Evrópusinna. Hún er mannfræðingur og hefur starfað hjá UNICEF á Íslandi síðan hún lauk námi.

„Þetta er auðvitað bara ótrúlega skemmtilegt og mikill heiður að vera valin úr öllum þessum flottu framboðum. Þetta er mjög spennandi tækifæri fyrir öll ungmenni á Íslandi að fá loksins þennan ungmennafulltrúa á sviði mannréttinda hjá Sameinuðu þjóðunum,“ segir Esther.

Þetta er í fyrsta skipti sem Ísland á ungmennafulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum. Flest aðildarríki hafa slíka fulltrúa og nokkur skipa yfir tuttugu fulltrúa sem sækja viðburði Sameinuðu þjóðanna. Esther verður til að mynda fulltrúi Íslands á 74. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í september, á sviði mannréttinda. 

„Þetta er auðvitað hlutverk í umboði allra ungmenna á Íslandi og ég mun vinna náið með LUF og leggja áherslu  á þau mál sem sambandið hefur verið að beita sér fyrir, eins og til dæmis  umhverfismál, jafnrétti, mannréttindi og þátttökurétt ungs fólks í þeim málefnum sem snerta ungt fólk,“ segir hún.